HÍ beri samfélagslega ábyrgð á spilakössum

Spilakassar Happdrættis Háskólans.
Spilakassar Happdrættis Háskólans. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands getur ekki staðið að rekstri spilakassa öðruvísi en að taka tillit til nýjustu rannsókna um áhrif spilakassa á tiltekna hópa samfélagsins. Sömuleiðis þarf skólinn að taka upp allar mögulegar aðgerðir sem geta stuðlað að ábyrgri spilun og lágmarkað neikvæðar afleiðingar jafnt fyrir einstaklinga og samfélagið í heild.

Þetta er niðurstaða starfshóps á vegum rektors HÍ sem ætlað var að meta siðferðileg og önnur álitaefni tengd tekjuöflun Happdrættis Háskóla Íslands (HHÍ).

Hópurinn skilaði skýrslunni til háskólans 28. júní 2021 en hún var ekki birt almenningi fyrr en í fyrradag.

Þurfi að bregðast við væntum tekjumissi

„Út frá fyrirliggjandi gögnum er ljóst að tekjur frá HHÍ eru mikilvægar fyrir uppbyggingu innviða HÍ. Hins vegar er einnig ljóst að viðhorf almennings til spilakassa er neikvætt og ætla má að gagnrýnisraddir verði sífellt háværari. Niðurstöður innlendra og erlendra rannsókna sýna einnig fram á skýr tengsl milli spilavanda og notkunar spilakassa,“ segir í skýrslunni.

„Háskóli Íslands ber því að leggja áherslu á skaðaminnkandi aðgerðir í tengslum við rekstur spilakassa með því að hvetja HHÍ til að taka sem fyrst nauðsynleg skref til innleiðingar spilakorta. Slíkar einhliða ákvarðanir HHÍ munu óhjákvæmilega leiða til tekjuhruns sem aftur mun koma verulega niður á innviðauppbyggingu HÍ. Með hliðjón af framansögðu er nauðsynlegt að horfa á málið heildstætt og leita allra leiða til að bregðast við væntum tekjumissi. “

Lesa má skýrsluna hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert