Íslendingur í Kænugarði: Allsherjar árás á borgina

Árásir Rússa á Úkraínu hófust í nótt.
Árásir Rússa á Úkraínu hófust í nótt. AFP

„Ég vaknaði klukkan fimm í nótt og mjög fljótlega eftir það heyri ég tvær sprengingar. Síðan halda þær áfram, ein og ein og ein. Það eru að minnsta kosti sjö eða átta sprengingar sem ég er búinn að heyra.“

Þetta segir Óskar Hall­gríms­son, ljós­mynd­ar­i og mynd­listarmaður, sem bú­sett­ur er í Kænug­arði.

„Það er talað um að verið sé að ráðast á Boryspil, sem er flugvöllurinn hérna,“ segir Óskar í samtali við mbl.is, og gerir svo snöggt hlé á máli sínu.

„Já, þetta var ein enn núna. Þannig að það er verið að gera allsherjar árás á borgina.“

Óskar Hallgrímsson.
Óskar Hallgrímsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki bara Donbas-svæðið

Hann tekur fram að rafmagn og netsamband haldist enn uppi.

„Þeir eru líklega að miða á flugvellina og taktísk skotmörk. Þannig met ég þetta,“ segir Óskar og bætir við að hernaðaraðgerðir Rússa einskorðist augljóslega ekki við austurhluta Úkraínu.

„Konan mín er frá Odessa og á spjalli íbúa þar var sýnt myndskeið af flugvél fljúga yfir skýin og síðan fékk hún send myndskeið af sprengingum frá Kharkiv. Þannig þetta er ekki bara Donbas-svæðið.“

Spurður hvort að þeim sæki uggur segir hann að þau muni ekki fara nema þau finni fyrir óöryggi.

„Þegar ég lít út um gluggann hérna þá sé ég fullt af bílum vera að keyra upp götuna. Sem er nokkuð óeðlilegt svona snemma að morgni. Mér finnst líklegt að fólk sé bara að dúndra vestur.“

Hvað hyggst Pútín fyrir?

Þá segir hann spurninguna núna vera hvort Pútín hafi skipað hernum að ráðast á landið víða til að dreifa athyglinni, svo hann geti tekið yfir Donbas-svæðið, eða hvort hann stefni á að leggja undir sig alla Úkraínu.

„Hann hefur nefnilega ekki her til að taka yfir allt landið en hann hefur her til að eyðileggja helvíti mikið,“ segir Óskar.

„Þetta þrjátíu þúsund manna herlið sem hann er með í Hvíta-Rússlandi, það er ekki nóg til að taka yfir Kyiv. Þetta er þriggja milljóna manna borg.“

„Ég vaknaði klukkan fimm í nótt og mjög fljótlega eftir það heyri ég tvær sprengingar. Síðan halda þær áfram, ein og ein og ein. Það eru að minnsta kosti sjö eða átta sprengingar sem ég er búinn að heyra.“

mbl.is