Uppsagnirnar skaði verkalýðshreyfinguna

Björn fordæmir hópuppsögn Eflingar.
Björn fordæmir hópuppsögn Eflingar. mbl.is/Eggert

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju á Akureyri og aðalmaður í stjórn ASÍ, fordæmir hópuppsögn stjórnar Eflingar á öllu starfsfólki sínu. Hann telur að uppsagnirnar muni skaða verkalýðshreyfinguna.

„Ég fordæmi algjörlega það verklag að stéttarfélag fari í hópuppsögn þar sem að við höfum barist fyrir því í gegnum árin að menn beiti ekki hópuppsögnum. Ég tel að þetta muni skaða okkar mikilvæga starf og ég tel að þarna sé verið að vega að hlutum sem að við erum búin að vera berjast fyrir í áratugi,“ segir Björn í samtali við mbl.is.

Hann segir uppsagnirnar hafa komið sér á óvart. „Ég hélt að stéttarfélag myndi aldrei fara í svona aðgerðir.

Vilhjálmi líði ekki vel með málið

Björn er fyrrverandi formaður Starfsgreinasambandsins en nýr formaður tók við af honum í lok síðasta mánaðar.

Nýi formaðurinn, Vilhjálmur Birgisson, hefur ekki viljað fordæma uppsagnirnar.

Spurður hvað honum finnist um að Vilhjálmur taki ekki afstöðu með starfsfólki Eflingar segir Björn Vilhjálm hljóta að hafa sínar ástæður fyrir því að fordæma ekki málið. 

„Ég hef trú á því að Vilhjálmur sé mikill baráttumaður og ég hef trú á því að honum líði ekkert vel út af þessu.“

Skiptir skoðanir innan verkalýðshreyfingarinnar

Verkalýðshreyfingin virðist að einhverju leyti klofin í málinu. Drífa Snædal, formaður ASÍ, Svan­hild­ur Ólöf Þór­steins­dótt­ir, vara­formaður VR, og Friðrik Jóns­son, formaður BHM, hafa fordæmt uppsagnirnar.

Aðal­steinn Árni Bald­urs­son, formaður Fram­sýn­ar stétt­ar­fé­lags á Húsa­vík, hefur eins og Vilhjálmur Birgisson ekki viljað fordæmt uppsagnirnar.

„Það er alveg ljóst að það eru mjög skiptar skoðanir. Mjög margir af þeim sem að ég heyri í finnst alveg galið að þetta hafi verið gert með þessum hætti,“ segir Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert