„Ég vil bara hætta þessu kjaftæði“

Ólöf Helga er ritari í stjórn Eflingar og fyrrverandi varaformaður …
Ólöf Helga er ritari í stjórn Eflingar og fyrrverandi varaformaður til skamms tíma. Samsett mynd/mbl.is

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari í stjórn Eflingar, vonast til að niðurstaða félagsfundar sem fer fram á morgun verði sú að ákveðið verði að draga hópuppsagnir á skrifstofunni til baka.

Hún segir félagsfólk Eflingar sem hún hefur rætt við sé reitt og ósátt við að stéttarfélag setji fordæmi fyrir hópuppsögnum með þessum hætti.

Boðað var til félagsfundar Eflingar eftir að tæplega 500 félagsmenn undirrituðu kröfu þess eðlis. Var krafan sú að rædd yrði ákvörðun stjórnar um hópuppsögn á skrifstofunni. Að mati Ólafar er hins vegar ekki verið að fara að kröfu félagsfólks ef marka má fundarboð sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendi út á sunnudag. Þar kemur fram að umræðuefnið sé skipulagsbreytingar á skrifstofunni.

„Í fundarboðinu er þetta kynnt sem kynningarfundur um skipulagsbreytingarnar. Þetta er voðalega villandi finnst mér,“ segir Ólöf í samtal við mbl.is. Hún gerir ráð fyrir fjölmenni á fundinn þó krafan hafi verið sú að fundurinn færi fram síðastliðinn föstudag. Fólk sé eftir bestu getu að fá sig laust til að mæta.

Vill að hlustað sé á félagsmenn

Fundarstaðurinn hefur verið færður úr Guðrúnartúni yfir í Valsheimilið, enda hefði Guðrúnartúnið ekki rúmað fleiri en 100 manns, að sögn Ólafar.

„Þeir sem ég hef talað við eru mjög reiðir yfir ástandinu. Enginn sem ég hef talað við er sáttur við að stéttarfélag fari hópuppsagnir. Það er ekki bara verið að setja fordæmi fyrir hópuppsögnum heldur setja fordæmi fyrir því að fara ekki eftir reglum. Fólk er reitt og fólk vill mæta.“

Hún gerir töluverðar væntingar til fundarins og vonast til að hann skili jákvæðri niðurstöðu.

„Ég vona að við komum af þessum fundi búin að taka góða ákvörðun um að draga uppsagnirnar til baka. Það er mín von. Ég vil bara að félagið okkar hagi sér eins og við viljum að aðrir atvinnurekendur hagi sér. Að við hlustum á félagsmenn okkar þegar þeir gera kröfu um félagsfund og að þegar þeir segja okkur hvert fundarefnið á að vera, að við förum eftir því,“ segir Ólöf.

„Ég vil bara hætta þessu kjaftæði og fara að vinna fyrir félagsmenn okkar,“ bætir hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert