Sósíalistar hafi fjölmörg spil á hendi

Sanna Magdalena Mörtudóttir, er oddviti Sósíalista.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, er oddviti Sósíalista. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir stöðuna í viðræðum um myndun nýs meirihluta í borginni mjög opna. Ekki sé rétt að einhver einn flokkur hafi lykilinn að meirihlutamyndun í hendi sér. Umræðan hafi verið einfölduð fram úr öllu hófi.

Hann telur að viðræðurnar komi til með að taka töluverðan tíma, allt upp í nokkrar vikur. Þá geti ýmislegt breyst í afstöðu flokkanna til samstarfs, eftir því sem viðræðunum vindur fram.

Marklítil umræða um Framsókn og Viðreisn

Talað hefur verið um að Framsókn sé í lykilstöðu í borginni en flokkurinn fékk fjóra borgarfulltrúa kjörna eftir að hafa ekki átt fulltrúa á síðasta kjörtímabili.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær að það væri þó frekar Viðreisn sem væri í sterkri stöðu, enda hafi möguleikar Framsóknar verið takmarkaðir með yfirlýsingu oddvita Viðreisnar, Pírata og Samfylkingarinnar um að fylgjast að í viðræðunum.

Þá hafi Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, einnig sagt að hún útiloki ekki samstarf til hægri.

„Ég myndi halda að þessi umræða sé frekar marklítil um það hvort það sé Framsókn eða Viðreisn. Báðir þessir flokkar eru í mjög vænlegri stöðu, en auðvitað eru flokkarnir í misvænlegri stöðu, það er alveg á hreinu,“ segir Eiríkur í samtali við mbl.is.

Eiríkur Bergmann segir umræðuna hafa verið einfaldaða fram úr hófi.
Eiríkur Bergmann segir umræðuna hafa verið einfaldaða fram úr hófi.

Þurfa ekki að útiloka Viðreisn

„Stjórnmál eru list hins mögulega. Verkefnið er að telja til tólf borgarfulltrúa. Það er hægt að gera með ýmsum hætti og það eru margir leikendur á vellinum sem geta tekið þátt í því. Það, að einhverjir hafi útilokað einhverja aðra, eða lýst yfir efasemdum eða bandalagamyndunum og svo framvegis, það heldur bara upp að ákveðnu marki.“

Eiríkur segir allt slíkt breytingum háð eftir því sem viðræðum vindi fram.

„Eftir því sem viðræðum vindur fram þá breytist staðan. Það er hægt að sauma þennan meirihluta saman í ýmsum mynstrum og í ýmsum litum. Ég myndi segja að Sósíalistar hafi líka fjölmörg spil á sinni hendi sem þeir geta leikið út. Það er ekkert nauðsynlegt fyrir þá að útiloka Viðreisn út í hið óendanlega. Það er líka hægt að semja.“

Þá segist Eiríkur ekki viss um að afstaða Vinstri grænna, um ætla ekki að taka þátt í meirihlutasamstarfi, sé meitluð í stein. Svo margar útfærslur séu í boði.

„Það er líka hægt að semja við framboð eins og Vinstri græn um að veita tilteknum stjórnvöldum í Reykjavík hlutleysi, án þess að taka virkan þátt í samstarfinu.“

Líf Magneudóttir er oddviti Vinstri grænna sem gefið hafa út …
Líf Magneudóttir er oddviti Vinstri grænna sem gefið hafa út að ætla ekki að taka þátt í meirihlutasamstarfi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engin neyð fólgin í löngum viðræðum 

Hann segir nokkuð marga vænlega kosti í stöðunni núna en það muni taka tíma að komast að niðurstöðu.

„Ég held að það sé málið. Menn þurfa bara að anda með nefinu, fara yfir kostina og þá sést að þeir eru miklu fleiri en einhverjir hafa verið að gefa út,“ segir Eiríkur.

„Það er ekki óeðlilegt miðað við niðurstöðu kosninganna og afstöðu flokkanna til manna og málefna, að þetta taki svolítinn tíma. Það er engin neyð fólgin í því þótt þetta taki einhverjar vikur. En svo veit maður aldrei, kannski dúkkar eitthvað upp síðdegis. En maður myndi halda að þetta tæki töluverðan tíma.“

Eiríkur Bergmann segir hægt að sauma saman meirihluta með ýmsum …
Eiríkur Bergmann segir hægt að sauma saman meirihluta með ýmsum mynstrum og ýmsum litum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipti borgarstjórastólsins komi til greina 

Hvað tilkall til borgarstjórastólsins varðar, segir Eiríkur það almennt vera þannig að hann fari í hendur stærstu framboðanna sem mynda meirihluta. Það sé hins vegar ekki einhlítt og aðstæður geti kallað á aðra niðurstöðu. Þá sé líka hægt að semja um skipti um borgarstjórastólinn á miðju kjörtímabili.

Aðspurður hvort hann sjái það sem líklega niðurstöðu, segir hann það fara svolítið eftir samsetningunni. „Það eru til augljósar samsetningar þar sem það hlyti að vera til umræðu. Það blasir alveg við.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert