Taka þurfi fjölgun skotárása mjög alvarlega

Margrét segir ekki lengur hægt að horfa framhjá því að …
Margrét segir ekki lengur hægt að horfa framhjá því að taka samtal um byssueign. Ljósmynd/Aðsend

Það er algjört forgangsmál að hefja rannsókn á því hvort of auðvelt er að fá skotvopnaleyfi hér á landi og hvort endurskoða þurfi byssulöggjöfina, að mati Margrétar Valdimarsdóttur doktors í afbrotafræði og dósents í lögreglufræði við HA.

Hún segir það ekki nýjar upplýsingar að hér á landi séu mjög mörg skotvopn skráð miðað við höfðatölu. Það sama eigi við hér og í öðrum löndum að því fleiri lögleg vopn sem séu í samfélaginu, því fleiri skotvopn séu í umferð almennt. Ekki sé nóg að hafa bara áhyggjur af ólöglegum skotvopnum.

„Við skorum mjög hátt á lista þegar tekið er saman byssur á hvern íbúa, en við höfum ekki verið að eiga neitt samtal í pólitíkinni, í fjölmiðlum eða í kerfinu um þessa byssueign af því þetta hefur ekki verið vandamál, skotárásar á almenna borgara. Svo er þetta að aukast og af hverju? Án þess að leggjast í sérstaka rannsóknarvinnu þá er í raun ekki hægt að svara því, en það er það sem við þurfum að gera núna hér á Íslandi,“ segir Margrét í samtali við mbl.is.

Ekki bara eitthvað sem birtist í fjölmiðlum

Það þurfi raunverulega að fara að bregðast við hér landi enda liggi fyrir að skotvopnum sé beitt í auknum mæli og almennum borgurum stafi ógn af. Síðast á miðvikudag skaut karlmaður úr íbúð sinni við Miðvang í Hafnarfirði á tvo kyrrstæða bíla, en í öðrum þeirra var faðir ásamt sex ára syni sínum. Þeir sluppu báðir ómeiddir.

Þá voru tvær skotárásir með tæplega viku millibili í febrúar síðastliðnum. Annars vegar var skotið á karl og konu í Grafarholti og særðist fólkið töluvert í árásinni. Hinsvegar var skotið á karlmann í miðbæ Reykjavíkur sem einnig særðist töluvert. Í ágúst á síðasta ári skaut karlmaður úr haglabyssu á Egilstöðum bæði á hús og að lögreglubíl, en lögregla skaut manninn þegar hann varð ekki við fyrirmælum um að leggja frá sér vopnið. Börn höfðu þurft að flýja undan byssumanninum.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að fara að skoða af einhverri alvöru á Íslandi því við þurfum að vita hvernig sé rétt að bregðast við. Þetta er ekki bara eitthvað sem er að birtast í fjölmiðlum, það er í alvöru þannig að það eru að koma fleiri útköll þar sem óskað er eftir aðstoð sérsveitarinnar. Þá þurfum við að skoða það, er verið að úthluta of mikið af skotvopnaleyfum? Er of auðvelt að fá skotvopnaleyfi á Íslandi? Þetta eru alltaf spurningar sem koma upp í Bandaríkjunum í tengslum við skotárásir. Við þurfum að fara að skoða þetta hérna af einhverri alvöru.“

Byssumaður skaut á tvo kyrrstæða bíla við Miðvang í Hafnarfirði …
Byssumaður skaut á tvo kyrrstæða bíla við Miðvang í Hafnarfirði á miðvikudag. Sex ára barn var í öðrum bílnum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skoða þurfi aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu

Margrét segir að það þurfi líka að reyna henda reiður á hve mikið af ólöglegum skotvopnum sé í umferð hér á landi. Skoða þurfi hvernig eigi að bregðast við ólöglegum vopnum, jafnvel með því að herða refsingar við ólöglegum vopnaburði. Einnig þurfi að skoða aðra orsakaþætti.

„Í Bandaríkjunum er til dæmis tekin þessi umræða um að það þurfi að skoða aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og það á alveg örugglega við hér líka. Ég er alls ekki að segja að þessar skotárásir séu allar framkvæmdar af fólki sem á við geðræn vandamál að stríða en það virðist vera þannig að það þarf að skoða það.“

Maðurinn sem handtekinn var á miðvikdag vegna skotárásinnar á Miðvangi var úrskurðaður til að sæta vistun á viðeigandi stofnun í fjórar vikur, en lögregla vildi ekki gefa frekari upplýsingar um ástand hans.

„Ég held að það sé mikilvægast núna að við áttum okkur á því að við getum ekki lengur horft fram hjá því að við erum á þeim stað að við þurfum að fara að rannsaka þetta af alvöru og eiga samtal um þessi atriði sem ég er að nefna,“ segir Margrét.

„Þrátt fyrir að fólk hafi ekki verið að deyja í þessum skotárásum hérna þá er þetta engu að síður mjög alvarlegt og eitthvað sem við þurfum að taka mjög alvarlega,“ bætir hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina