Börnin kannski að hugsa eitthvað allt annað

Leikskólinn Víðivellir stendur við blokkina sem maðurinn skaut frá.
Leikskólinn Víðivellir stendur við blokkina sem maðurinn skaut frá. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á annan tug einstaklinga hefur leitað sér áfallahjálpar með því að hringja í hjálparsíma Rauða krossins eftir skotárásina við Miðvang í Hafnarfirði á miðvikudag. Þá hafa einhverjir þurft á frekari stuðningi að halda og hafa þeir fengið áfallaviðtal og fyrstu hjálp hjá viðbragðsteymi Rauða krossins.

Þetta segir Elfa Dögg S. Leifsdóttir, sálfræðingur og teymisstjóri heilbrigðisverkefna hjá Rauða krossinum, í samtali við mbl.is. Hún bendir á að Rauði krossinn sé í fyrsta viðbragði og að fólki sé bent á að hafa samband símleiðis í númerið 1717, þurfi það á stuðningi að halda. Sumum reynist nóg að fá sálrænan stuðning í gegnum síma, en þurfi fólk frekari stuðning taki viðbragðsteymið við.

Byssumaðurinn skaut á tvo bíla en í öðrum þeirra voru faðir og sex ára sonur hans. Í viðtali við RÚV í gær sagðist faðirinn hafa verið verið á leið með son sinn á leikskólann Víðivelli þegar skotið var á bílinn, en leikskólinn stendur við fjölbýlishúsið sem byssumaðurinn var staddur inni í.

Mikill viðbúnaður var vegna byssumannsins.
Mikill viðbúnaður var vegna byssumannsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gott að leyfa börnunum að spyrja sjálf

Rauði krossinn var beðinn um að koma og ræða við starfsfólk leikskólans Víðivalla, en þegar skotárásin átti sér stað voru 17 börn mætt og 21 starfsmaður mættur til vinnu.

„Þá er farið yfir algeng viðbrögð þegar svona gengur á. Þegar fólk lendir í svona aðstæðum. Líka hverju má búast við í framhaldinu og hvernig má styðja við börnin,“ segir Elfa.

Rauði krossinn veitir svona ungum börnunum ekki áfallahjálp heldur kemur með leiðbeiningar og fræðslu um hvernig á að nálgast börnin og svara spurningum þeirra.

„Nú eru þetta svo ung börn. Við komum með nokkra punkta um hvernig má styðja við börnin og leyfa þeim að tjá sig á sínum forsendum. Á þessum aldri þá fer það meira í gegnum foreldrana og þá sem eru í þeirra daglega lífi. Börn bregðst öðruvísi við en fullorðnir við svona atvikum,“ útskýrir Elfa.

Mikilvægt sé að hafa þroskastig barnanna í huga og vera ekki að gefa of miklar upplýsingar heldur frekar spyrja hvort þau hafi einhverjar spurningar. Sérstaklega eigi það við eldri börnin sem eru meðvitaðri en þessi yngri.

„Spyrja þau frekar: „Er eitthvað sem þú vilt spyrja?“ eða „Ertu að hugsa eitthvað sérstakt?“ heldur en að koma með langa rullu um hvað hefur gerst. Þau eru kannski að hugsa eitthvað allt annað en við höldum.“

Aðspurð segir Elfa að enn sem komið er hafi leiðbeiningar varðandi stuðning við börnin eingöngu farið í gegnum starfsfólkið á leikskólanum en ekki foreldrana.

„Svo er kerfið þannig það er sérstakt áfallateymi innan Hafnarfjarðar sem mun taka við þessum bolta og styðja eftir þörfum við leikskólann og þá sem þurfa.“

Skotárásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps.
Skotárásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eðlilegt að finna fyrir vanlíðan 

Elfa segir gott að fólki leiti sér stuðnings, enda geti atvik sem þetta haft veruleg áhrif á líðan fólks og hræðsluviðbrögð geti gert vart við sig í einhverja daga á eftir.

„Það er orðið viðurkenndara í dag að svona atvik hafa áhrif á mann og í raun og veru er það eðlilegt. Það er ekki óðeðlilegt að maður finni fyrir vanlíðan þegar maður stendur frammi fyrir einhverju skelfilegu. Þegar það er svona ógn þá eru sumir sem upplifa hreinlega lífshættu.“

Fólki líði þó alltaf betur þegar allt fer vel eins og á miðvikudaginn. Það upplifi meira öryggi eftir að búið er að ná tökum á ástandinu.

„En þó að allt fari vel þá fara öll kerfin okkar af stað, lífeðlislegu kerfin; „fight, flight or freeze.“ Það tekur líkamann og hugann dálítinn tíma að róa sig niður. Það gerist á næstu dögum eftir slíkan atburð. Þá er fólk meira á varðbergi.“

Elfa segir það hlutverk viðbragðsteymis Rauða krossins að hjálpa fólki að ná utan um þetta og skilja að um sé að ræða eðlilegt ferli.

mbl.is