Sex ára barn í bílnum sem skotið var á

Hér má sjá annan bílinn sem varð fyrir skotum í …
Hér má sjá annan bílinn sem varð fyrir skotum í dag við Miðvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Faðir og sex ára sonur hans voru í bílnum sem skotið var á í morgun við Miðvang. Hinn bílinn sem skotið var á var þó mannlaus. Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á miðlægðri rannsóknardeild, staðfesti þetta í samtali við mbl.is.

Bílarnir sem skotið var að voru á bílastæðinu á milli blokkarinnar og leikskóla Víðivalla.

Fram kom á Vísi að maðurinn sem skotið var að hafi verið á leið með son sinn á leikskóla þegar að maður í íbúðarhúsi við Miðvang hóf að skjóta í átt að honum. Eins og fyrr hefur verið greint frá var leikskólanum lokað. 

Maðurinn kom út að sjálfsdáðum úr íbúðinni um hádegi í dag en þá hafði lögregla verið á svæðinu í rúma fjóra tíma. Var hann þá handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem tekin var skýrsla af manninum.

Segir Margeir þá að það sé í skoðun hvort að farið verði fram á gæsluvarðhald gagnvart manninum. Mun það verða ákveðið fyrir hádegi á morgun. 

mbl.is