Tveir látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi

Árásin átti sér stað á milli klukkan fimm og sex …
Árásin átti sér stað á milli klukkan fimm og sex í morgun. Ljósmynd/Blöndós.is

Tveir eru látnir og einn særður eftir skotárás á Blönduósi í morgun. Árásin átti sér stað á milli klukkan fimm og sex. Þetta staðfestir Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, í samtali við mbl.is. Meintur árásarmaður er annar hinna látnu.

Einstaklingar hafa verið handteknir í tengslum við málið en Birgir getur ekki staðfest hve margir. Fólkið sem tengist málinu eru allt Íslendingar búsettir á Blönduósi. Tengsl eru á milli fólksins. 

Birgir segir málið til rannsóknar en búið sé að teikna upp ákveðna mynd af því sem gerðist.

Upplýsingar um líðan þess særða liggja ekki fyrir en hann var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar um málið að svo stöddu en tilkynning er væntanleg síðar í dag. Sakamálahluti málsins er í höndum lögreglunnar á Norðurlandi eystra, lögum samkvæmt.

Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossi Íslands hafa tveir viðbragðshópar með sjálfboðaliðum sem sérhæfa sig í áfallaviðbrögðum og sálrænni skyndihjálp verið sendir á Blönduós. 

Annars vegar er viðbragðshópur frá Skagaströnd og hins vegar frá Akureyri. 

mbl.is