Segir að tryggja þurfi sambærileg launakjör

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.
Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Arnþór Birkisson

Mannekla er stærsta áskorun Landspítala um þessar mundir. Mestur er vandinn á bráðamóttökunni í Fossvogi, þar sem langvarandi álag við erfiðar aðstæður hefur leitt til uppsagna fjölda hjúkrunarfræðinga.

Þetta segir forstjórinn Runólfur Pálsson í vikulegum pistli sínum á vef Landspítala.

„Mest áberandi er skortur á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en sömuleiðis er mannekla í röðum lækna, einkum innan tiltekinna sérgreina, sem og meðal annarra heilbrigðisstétta,“ skrifar Runólfur.

Betur má ef duga skal

„Við höfum á undanförnum mánuðum gripið til ýmissa úrræða til að minnka álagið á starfsfólk bráðamóttökunnar, meðal annars með stofnun nýrrar dagdeildar lyflækninga, yfirlögnum á legudeildir spítalans og með aukinni stoðþjónustu. En betur má ef duga skal,“ bætir hann við.

Ljóst sé að bæta þurfi vinnuumhverfi víða á Landspítala, „og tryggja að launakjör séu sambærileg við það sem býðst hjá samkeppnisaðilum okkar svo að við getum haldið í okkar færa starfsfólk“.

„Við þurfum líka að laða til okkar öflugt starfsfólk og í því skyni er mikilvægt að styrkja stöðu vísinda og kennslu á spítalanum. Á komandi mánuðum og árum munum við leggja allt kapp á að gera Landspítala að eftirsóknarverðum vinnustað.“

Nýtt skipurit á leiðinni

Runólfur kveðst þá stefna að því að leggja drög að nýju skipuriti fyrir stjórn spítalans síðar í þessum mánuði.

„Ég bind því vonir við að geta kynnt breytingar á skipulagi og nýtt skipurit fyrir stjórnendum og starfsfólki spítalans innan fárra vikna,“ skrifar forstjórinn. 

Tekur hann fram að spítalinn njóti liðsinnis alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey, sem meðal annars aðstoði við að kanna hvernig fremstu spítalar heims hafi þróað og útfært skipulag sitt og skipurit.

Umfangsmikið verkefni

„Þegar horft er til framtíðar er markmið mitt einkum að einfalda miðlæga stjórnsýslu ásamt því að færa ábyrgð og áhrif nær klínísku starfseminni og munu breytingar á skipuriti spítalans endurspegla þessa nálgun. Tilgangurinn er fyrst og fremst að efla þjónustu við sjúklinga.“

Verkefnið sé umfangsmikið og því nauðsynlegt að skipta því í áfanga.

„Þessa dagana er unnið að útfærslu breytts stjórnskipulags í samstarfi við McKinsey og er það fyrsti áfanginn í þessari vegferð. Hafa meðal annars verið tekin viðtöl við starfsfólk til að kanna sýn þess á skipulag og starfsemi Landspítala. Ég stefni að því að leggja drög að nýju skipuriti fyrir stjórn Landspítala síðar í þessum mánuði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert