Ekkert rafmagnsleysi í flutningskerfi Landsnets

Steinunn segir veðrið óútreiknanlegt og erfitt að vita hvort línur …
Steinunn segir veðrið óútreiknanlegt og erfitt að vita hvort línur haldi eða ekki.

Upplýsingafulltrúi Landsnets segir flutningskerfið hafa staðið af sér óveðrið það sem af er kvöldi. Lítið sem ekkert rafmagnsleysi hafi komið upp í kerfum þeirra en eftir því sem líði muni athyglin beinast að Suðausturlandi þar sem veðrið fer versnandi.

Þó Laxárlína 1 og Kröfulína 2 séu úti sem stendur hefur það ekki áhrif á virkni kerfisins. Ný Kröflulína 3, sem var tekin í gagnið í fyrra, ber álagið vel að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets.

Munu bíða með gangsetningu línanna til morguns

„Það er ekkert rafmagnsleysi í kerfinu okkar í kvöld. Við misstum Húsavíkurlínu út í nokkrar mínútur en það var bara nokkurra mínútna straumleysi.“

Steinunn segir að Laxárlínu 1 og Kröflulínu 2 verði haldið úti til morgundags eða þangað til veður lægir. Hún segist ekki nákvæmlega vita hvers eðlis þær bilanir sem hrjái línurnar séu.

„Veðurspáin gerir ráð fyrir að þetta haldi áfram inn í nóttina,“ segir Steinunn sem telur mestu hættuna sem vofi yfir á Suðausturlandi vera foktjón en ekki ísingu.

mbl.is