Dagur: Nýju reglurnar ná ekki til framlínuþjónustu

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir breitt starfsumhverfi í faraldrinum hafi …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir breitt starfsumhverfi í faraldrinum hafi gert það að verkum að ráða hafi þurft auka starfsfólk. Nú gangi þau störf til baka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýjar ráðningareglur Reykjavíkurborgar munu ekki ná til framlínuþjónustu inni í leikskólum þar sem er undirmannað. Þetta segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is í dag, en áður hafði komið fram að störfum á leikskólum muni fækka milli ára, eða um 1-2 stöðugildi á hvern leikskóla.

Í tengslum við nýja fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár voru sviðstjórar og stjórnendur sem starfa fyrir borgina hvattir til þess að endurráða ekki í störf sem losna nema brýna nauðsyn beri til. Er þetta einn liður áætlunar Reykjavíkurborgar til hagræðingar sökum töluvert meiri halla reksturs borgarinnar en gert var ráð fyrir. Einar Þorsteinsson, forseti borgarstjórar, sagði að ráðningarstopp væri ekki hjá leikskólum, í frístund eða í nauðsynlegri velferðarþjónustu.

Fljótlega í kjölfarið sendi borgin þó frá sér tilkynningu um að ofmannað væri í leikskólum borgarinnar, en á sama tíma hefur erfiðlega gengið að manna leikskóla og eru langir biðlistar eftir plássi á þeim.

Leitað eftir svara við þessum mismunandi upplýsingum sem berast um mönnun leikskóla segir Dagur að ráðningareglurnar nái ekki til framlínuþjónustu á leikskólunum, án þess að tjá sig frekar um til hvaða starfa innan leikskólanna þessi fækkun myndi þá ná til.

Spurður nánar um þörfina á hertum ráðningarreglum og hvort það þýddi að Reykjavíkurborg hafi stækkað of mikið sem vinnustaður undanfarið segir Dagur: „Við þurftum á fleiri höndum að halda í gegnum Covid-19. Á vaktavinnustöðum, t.d. þar sem þurfti að hólfa starfsemina upp, þar þurfti tvær vaktalínur í staðin fyrir kannski eina áður. Við þurftum líka aukið starfsfólk inn í skólaumhverfið því þar var verið að vinna með sóttvarnarhólf. Nú gerum við ráð fyrir því að þetta færist til fyrri vegar,“ segir Dagur.

Covid-19 störfin ganga til baka

Dagur telur það hafa verið skynsamlega aðgerð að fara í tímabundnar ráðningum í Covid-19-faraldrinu til þess að vinna gegn atvinnuleysi. Því sé hins vegar lokið núna og þá ganga þau störf til baka.

„Á nokkrum sviðum voru ráðningar sem voru miklar í faraldrinum að ganga til baka. Á öðrum sviðum eins og starfsfólk sem er að sinna búsetukjörnum og annað, munum við halda áfram að bæta við okkur fólki. Við munum halda áfram að bæta við fólki inn á leikskóla því við erum að fjölga leikskólum og brúa bilið á milli leikskóla og fæðingarorlofs.

Ráðningareglurnar ná ekki til þessara framlínuþjónustu inni í leikskólunum þar sem er vanmönnun heldur bara til kerfisins í heild.“

Slegist um starfsfólk

„Því er ekkert að leyna að það gekk betur að fullmanna víða í kerfinu í Covid-19 heldur en núna þegar ferðaþjónustan og fjölda margar aðrar atvinnugreinar eru að slást við okkur um starfsfólk,“ segir Dagur.

„Þannig við höfum séð manneklu t.d. á leikskólum á þessu hausti sem minnir á árin fyrir Covid-19. Við erum á fullu að manna þessi störf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert