Eiga vatnsbirgðir fyrir tvo sólarhringa

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur dísilknúna varaaflsstöð sem hægt er að keyra eins lengi og þarf og haldið getur afköstum flugvallarins alls ef til rafmagnsleysis kemur.

Þetta kemur fram í skriflegum svörum upplýsingafulltrúa við fyrirspurn mbl.is vegna rafmagnsleysis sem varð á Reykjanesskaganum öllum í fyrradag. 

Rafmagnsleysið hafði engin teljandi áhrif á starfsemi vallarins ef undanskilið er fimmtán sekúndna bið eftir að varaaflsstöðin tekur að keyra sig í gang frá því að rafmagni sló út. 

Flugvöllurinn býr einnig yfir stórum vatnstank en heita- og kaldavatnsdælur HS Veitna eru knúnar á rafmagni. Vatnstankurinn í Leifsstöð heldur flæði og fullum þrýstingi á köldu vatni á flugvallarstæðinu í allt að tvo sólarhringa. 

mbl.is