Sameiginleg niðurstaða ráðuneytis og LHG

Helga Vala Helgadóttir og Jón Gunnarsson ræddu um fyrirhugaða sölu …
Helga Vala Helgadóttir og Jón Gunnarsson ræddu um fyrirhugaða sölu á flugvél Landhelgisgæslunnar á Alþingi í dag. Jón segir að þegar kemur að því að fá heimild til að selja vélina þá verði það borið undir þingið. Samsett mynd/mbl.is

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að það hafi verið sameiginleg niðurstaða dómsmálaráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar að hætta rekstri flugvélar Gæslunnar, TF-SIF, í ljósi erfiðs reksturs stofnunarinnar. Annarra hagkvæmari lausna verði leitað. 

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, dómsmálaráðherra hvernig hann sæi fyrir sér að Landhelgisgæslan gæti sinnt sínum lögbundnu verkefnum áfram eftir sölu á vélinni og hvers vegna þessi ákvörðun hefði ekki verið kynnt fyrir Alþingi, bæði í nefndum þingsins og í þingsal. 

Ákvörðunin muni styðja vel við rekstur varðskipa og þyrlna

Jón segir að það hafi legið fyrir í desember að rekstur Gæslunnar yrði erfiður. Eftir ítrekaða fundi með yfirmönnum Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðuneytisins hafi ráðuneytinu borist bréf frá Gæslunni 18. desember þar margir leiðir hefðu verið viðraðar hvernig mætti bregðast við stöðunni.

„Það var sameiginleg niðurstaða okkar að þessi væri skaðaminnst þegar kemur út frá sjónarmiðum í rekstri og öryggiskröfum, og viðbragði og björgunargetu Landhelgisgæslunnar,“ segir Jón. 

Hann segir enn fremur að þessi ákvörðun muni styðja vel við rekstur varðskipa og þyrlna Gæslunnar. 

Verið sé að skoða hagvæmari lausnir

Jón bendir á að undanfarin ár hafi TF-SIF hefði verið í verkefnum erlendis um það bil sex mánuði á ári hverju, og vegna viðhalds, þjálfunar flugmanna og orlofs þá hafi vélinni verið flogið hér innanlands innan við 100 tíma á ári á undanförnum árum. 

„Það gefur þar með augaleið að ekki hefur það mikil áhrif á öryggissjónarmiðin og það hefur verið heimild til að kalla vélina úr þeim verkefnum til landsins ef um mjög alvarlega atburði er að ræða og það hefur aldrei verið gert að mínu viti,“ sagði Jón og bætti við að vélin væri auk þess mjög dýr í rekstri. 

Nú sé verið að skoða aðrar hagkvæmari lausnir, einkum til eftirlits á ytri starfsvæðum utan drægi þyrlna. Það verði þá að tryggja slíka viðveru á ársgrundvelli og sá undirbúningur sé hafinn, m.a. með viðræðum við Isavia. 

Spurði hvað hefði breyst

Helga Vala furðaði sig á því að það liggi ekki fyrir hvað eigi að taka við í kjölfar ákvörðunar um að taka TF-SIF úr rekstri. Hún spurði ráðherra hvað hefði breyst frá því stjórnvöld ákváðu að fjárfesta í vélinni á sínum tíma eftir fjögurra ára þarfagreiningu. „Er Isavia þess háttar opinbert hlutafélag að það liggi bara með flugvélar á lausu þegar kallið kemur?“

Jón benti á að það væri ekki skortur á flugvélum í landinu sem hefðu m.a. nýst í almannavarnaástandi, sjúkraflugi og við flutning á björgunarliði þegar á þyrfti að halda. 

Vélin mjög dýr í rekstri

„Það þarf enginn að velkjast í vafa um það að við leitum annarra lausna til þess að sinna þessu sérstaklega eftirliti á ytri hafsvæðum og munum gera það í samvinnu við Landhelgisgæsluna. Við teljum að það verði miklu hagkvæmara. Eins og ég nefndi hér áðan þá er þessi vél mjög dýr í rekstri, mjög kostnaðarsamar fjárfestingar fram undan í henni. Ég tel að það sé mjög skynsamlegt, þó það væri ekki nema út frá þeim sjónarmiðum, að skoða breytingu á þessum rekstri og fara í vélar sem jafnvel eru ekki með nema um 30%, eða einn þriðja af þeim rekstrarkostnaði sem er á núverandi vélakosti.“

mbl.is