Stefnir forstjóra og ráðherra fyrir nefnd

Bjarna Jónssyni, formanni utanríkismálanefndar, brá í brún við fréttir gærdagsins …
Bjarna Jónssyni, formanni utanríkismálanefndar, brá í brún við fréttir gærdagsins af fyrirhugaðri sölu TF-SIF og telur málið krefjast mun nánari skoðunar.

„Þetta er gríðarlega þýðingarmikið öryggismál og snar þáttur í þessu alþjóðlega björgunarstarfi sem við erum að sinna við Ísland og líka varðandi það eftirlit sem við erum að sinna á þeim tímum sem við lifum núna,“ segir Bjarni Jónsson, formaður utanríkismálanefndar og þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í samtali við mbl.is.

Til umræðu eru áform dómsmálaráðuneytisins um sölu björgunar- og eftirlitsvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, sem verið hafa á dagskrá fjölmiðla síðan í gær og vakið viðbrögð víða.

Fundur í fyrramálið

Hefur Bjarni boðað fund í utanríkismálanefnd í fyrramálið, föstudag, til að ræða áform ráðuneytisins og hefur stefnt forstjóra Landhelgisgæslunnar og dómsmálaráðherra þangað.

„Þú getur ímyndað þér hvað mér brá þegar ég sá þetta í fréttum í gær,“ segir Bjarni, „ég hafði ekki heyrt á þetta minnst. Svona vinnubrögð ganga náttúrulega ekki, það þarf að fara betur yfir þetta, hvernig við tryggjum það að við njótum þess öryggis sem þessari vél er ætlað að sinna,“ segir hann enn fremur.

Horfi öðruvísi á öryggismálin

Kveðst Bjarni líta málið alvarlegum augum, íslensk þjóð horfi nú á öryggismál sín á mun breiðari grunni en áður hafi tíðkast, fjarskiptaöryggi, raforkuöryggi, matvælaöryggi svo eitthvað sé tínt til.

„Við erum búin að læra það núna að undanförnu að það er að mörgu að hyggja og þetta er eitthvað sem verður að vera í lagi,“ segir formaður utanríkismálanefndar að lokum, fundur þar í fyrramálið.

mbl.is