Hefur mokað síðan fimm í morgun

Snjó rutt í Neskaupstað snemma í morgun.
Snjó rutt í Neskaupstað snemma í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Snjóruðningsmaðurinn Einar Sveinn Sveinsson hefur verið að störfum í Neskaupstað síðan klukkan fimm í morgun, enda mikil úrkoma verið þar í allan dag. 

„Þetta er hellingur, það kemur svo mikið jafnóðum,“ segir Einar Sveinn, en tveir aðrir snjóruðningsmenn eru að störfum í bænum.

Viðbragðsaðilar að störfum í bænum.
Viðbragðsaðilar að störfum í bænum. Ljósmynd/Landsbjörg

Eftir að eitt snjóflóðanna féll innarlega í Neskaupstað í morgun og lokaði bænum í rauninni var hann beðinn um að stöðva umferð þangað á meðan verið var að ræsa út viðbragðsaðila. Spurður segist hann ekki vita hvenær bærinn opnar þar á nýjan leik.

Einnig opnuðu hann og samstarfsmenn hans vegina á rýmingarsvæðum til að björgunarsveitarfólk gæti aðstoðað íbúa þar við að komast í skjól.

Einar Sveinn kveðst ætla að vera við störf í dag eins lengi og óskað verður eftir. 

„Við höfum fengið meiri snjó í einu hreti, en þetta stendur svo lengi núna. Það er búið að snjóa svo mikið á okkur á meðan við erum að þessu og það er óvanalegt,“ segir hann, spurður hvort hann muni eftir öðru eins fannfergi í bænum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert