„Vonbrigði fyrir okkur að þau skuli hætta við“

Arnheiður telur að verkefnið hefði gengið upp ef úthald hefði …
Arnheiður telur að verkefnið hefði gengið upp ef úthald hefði verið til að láta á það reyna. Ljósmynd/Aðsend

Töluvert tekjutap verður fyrir ferðaþjónustufyrirtæki á Akureyri vegna þeirrar ákvörðunar þýska flugfélagsins Condor að hætta við áætlunarflug frá Frankfurt til Akureyrar og Egilsstaða í sumar.

Tilkynnt var um ákvörðunina í gær, en fyrsta flugið átti að vera um miðjan maí og fyrirvarinn því stuttur. Selt hafði verið í ferðir með flugfélaginu bæði til og frá Íslandi og mikil undirbúningsvinna hefur farið fram af hálfu heimamanna á Akureyri.

„Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt. Sú vinna sem hefur farið í þetta hefur miðað öll að því að það yrðu tekjur af þessu flugi strax í sumar og þær tekjur tapast að sjálfsögðu,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, í samtali við mbl.is.

„Þetta skapar ákveðinn vanda fyrir ferðaskrifstofur sem hafa sett upp ferðir sem miðast við þetta flug sem gátu byrjað á Egilsstöðum og endað á Akureyri og tekið hring þar. Þannig að þar verður tekjutap sem við erum mjög ósátt við.“

Markaðssetning hófst of seint

Arnheiður segir tapið þó ekki algjört því vinnan komi til með að skila sér í önnur flugverkefni sem eru í gangi.

„Staðan er þannig að við erum með betri stöðu í þeim verkefnum en við höfum nokkru sinni haft fyrir þetta svæði. Það eru fleiri flugfélög sem eru að koma inn þannig við munum nýta þessa vöruþróun áfram og auðvitað vera áfram í samtali við Condor um hvort það eru möguleikar á einhverju framhaldi ef þeir ná að halda orðsporinu.“

Í svari við fyrirspurn mbl.is gefur Condor þá skýringu á ákvörðun sinni að of seint hafi verið farið af stað með markaðssetningu og því hefði ekki tekist að ná langtímabókunum fyrir sumarfrí á Íslandi þetta árið. Áfangastaðir á Norður- og Austurlandi séu hins vegar spennandi valkostir fyrir þýska markaðinn og bjóði upp á mikla möguleika á næstu árum.

Vinnan nýtist eitthvað í önnur flugverkefni, að sögn Arnheiðar.
Vinnan nýtist eitthvað í önnur flugverkefni, að sögn Arnheiðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Verið að finna aðrar leiðir fyrir gestina

Arnheiður segir samtal um næsta sumar strax hafa farið í gang og möguleikann á því að flugfélagið fljúgi hingað sumarið 2024. Það sé hins vegar ekki búið að taka ákvörðun um það enn þá.

„Það verður lagst yfir það núna hvort það er möguleiki á að horfa fram í tímann. Þetta flug var kynnt með frekar litlum fyrirvara, of litlum fyrirvara miðað við árstíma, að vera að koma inn á hásumarið. Við höfum lagt meiri áherslu á að fá inn flugfélög að vetri því við erum að alltaf að reyna að vinna á árstíðarsveiflunni hjá okkur. Þannig við tökum þetta samtal bara í heild sinni með Condor og öðrum.“

Flugfélagið Transavia hefur flogið bæði að vetri og sumri til Akureyrar og vonir eru bundnar við að svissneska flugfélagið Edelweiss muni fljúga áfram til Akureyrar næsta vetur, að sögn Arnheiðar, en félagið byrjar að fljúga þangað í sumar.

„Þannig það eru fleiri verkefni í gangi og vinnan nýtist í það líka,“ segir Arnheiður. Vinnan er því ekki öll fyrir bí.

„Nei alls ekki. Það er í raun bara tekjutap sumarsins og væntar tekjur í sumar sem er skaðinn núna. Það er bæði búið að selja pakka til Íslands og pakkaferðir út. Það tapast núna og það fer vinna í það núna að finna aðrar leiðir fyrir þessa gesti.“

Bókunarstaða batni eftir að farið er af stað

Til stóð að Condor hæfi flug til Akureyrar um miðjan maí, þannig að fyrirvarinn er ansi stuttur. Arnheiður segir það vonbrigði að ekki hafi verið látið á það reyna hvort bókanir tækju við sér eftir að flug hæfist.

„Já það eru vonbrigði fyrir okkur að þau skuli hætta við áður en fyrsta flugið er farið í loftið til að sjá hvaða áhrif það hefði haft á bókunarstöðuna. Það er oft þannig að bókunarstaða batnar til muna eftir að fólk hefur séð flugið fara af stað. Af því að það þarf alltaf að byggja upp trúverðugleika í svona verkefnum,“ segir Arnheiður. „Þetta er ákvörðun sem þeir taka sem við erum að sjálfsögðu ekki ánægð með,“ bætir hún við.

„Við teljum að þetta hefði náðst“

Aðspurð hvort eftirspurnin hafi þá verið mjög lítil segir hún svo ekki vera. Þau hafi fundið fyrir töluverðum áhuga og eftirspurnin hafi verið að byggjast upp.

„Við vorum farin að finna vel fyrir áhuga á þessu flugi á vinnustofum og sýningum sem við höfum verið á síðustu mánuðum. Eftirspurnin var að byggjast upp og bókunarstaðan var orðin sæmileg í maí þegar fyrstu flugferðirnar áttu að vera. Við teljum að þetta hefði náðst ef úthaldið hefði verið til staðar að klára þetta.“

Arnheiður segir auðvitað alltaf samkeppni um áfangastaði og þá sé áhætta fólgin í því að hefja flug á nýja staði.

„Þetta var stórt verkefni, margar flugferðir og tveir nýir áfangastaðir. Við erum í sjálfu sér bara ánægð með að þeir skyldu allavega taka slaginn með okkur og vonandi náum við að keyra þetta aftur af stað.“

mbl.is