„Jú jú, þetta er Þór“

Hér er kominn rostungurinn Þór sem sást á Breiðdalsvík í …
Hér er kominn rostungurinn Þór sem sást á Breiðdalsvík í febrúar. Þetta staðfestir Rune Aae doktorsnemi sem fylgist grannt með ferðum rostunga um heiminn. Ljósmynd/Jón Gunnar Geirdal

„Jú jú, þetta er Þór sem sást á Breiðdalsvík fyrr í ár,“ segir Rune Aae, doktorsnemi í náttúruvísindum við Háskólann í Suðaustur-Noregi í Horten, kennari og í raun sérfræðingur í hegðun og ferðalögum rostunga.

Hefur Aae um árabil haldið úti kortum af ferðum rostunga, einkum hinna nafntoguðu Wally og Freyju heitinnar sem aflífuð var í Noregi í ágúst í fyrra að ráði Sjávarútvegsstofnunar landsins og var mörgum harmdauði auk þess sem dráp hennar vakti háværar deilur.

Aae, sem er nánast sveitungi blaðamanns, býr í Råde í Østfold sem er nokkurn veginn gegnt Tønsberg handan Óslóarfjarðarins, hefur birt kort sín á Facebook, Instagram og fleiri samfélagsmiðlum og lætur ferðakort Þórs í té með glöðu geði sem hér má sjá.

Kort Aae af ferðum Þórs en hann heldur úti slíkum …
Kort Aae af ferðum Þórs en hann heldur úti slíkum kortum yfir ferðir fleiri rostunga, svo sem Wally og Freyju heitinnar. Fólk sendir honum upplýsingar auk þess sem hann kveðst grúska mikið sjálfur til að afla upplýsinga um ferðirnar. Eins og sést er síðasti viðkomustaður Þórs nú Þórshöfn. Kort/Google/Rune Aae

Sé rýnt í kortið sést að Þór hefur gert víðreist, var í Tau, skammt frá Stavanger, í júlí í fyrra en heldur þaðan yfir til Hollands og svo niður með vesturströnd Evrópu til Frakklands og að lokum yfir til Bretlands 11. desember þar sem Darren Mckell og fjölskylda hans sjá dýrið. Fjöldi fólks veit af Aae og sendir honum upplýsingar um ferðir rostunga, „en ég grúska líka mikið og leita sjálfur“, segir hann við mbl.is.

Rune Aae er mikill áhugamaður um flest dýr svo sem …
Rune Aae er mikill áhugamaður um flest dýr svo sem sjá má af þessari mynd. Hann fylgist grannt með ferðum rostunga og er fróður um þá. Ljósmynd/Julia Marie Naglestad

Neðan við fréttina er hlekkur á kortið og með því að smella á viðkomustaði Þórs á kortinu má sjá að Aae hefur fært þar inn dagsetningar, hver eða hverjir koma auga á dýrið þegar því er að skipta og hlekki sem vísa á fjölmiðlaumfjöllun á viðkomandi stað. Mikið eljuverk.

„Nei, það er svo sem ekkert sérstakt um Þór að segja,“ svarar þessi gallharði áhugamaður aðspurður, „hann er þarna í þessu dæmigerða ferðamynstri rostunga, þetta er ungt dýr sem hefur farið til suðurs í Evrópu en snýr svo við og tekur stefnuna heim. Sú stefna sem hann er á núna gæti gefið til kynna að hann haldi til móts við sinn hóp á Grænlandi en ekki á Svalbarða eins og þeir gera flestir,“ segir Aae sem er öllum hnútum kunnugur.

Hlekkur á kortið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert