Krefjast þess að uppbygging verði ekki tafin

Reykjavíkurflugvöllur við Skerjafjörð.
Reykjavíkurflugvöllur við Skerjafjörð. mbl.is/Árni Sæberg

Stúdentaráð Háskóla Íslands fagnar því að niðurstaða starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi sé nú loksins orðin ljós og að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða. 

,,Það er brýnt hagsmunamál fyrir stúdenta að uppbygging í Skerjafirði fari af stað sem allra fyrst, enda er mikil aðsókn í stúdentagarða Félagsstofnunar stúdenta (FS) og telur biðlistinn í dag tæplega 900 manns, sem er rúmlega þriðjungi meira en á sama tíma í fyrra,” segir í ályktun stúdentaráðsins.

Þá krefst stúdentaráð þess að nú verði hlustað á sérfræðinga og að uppbygging verði ekki tafin enn frekar.

„[E]nda er bráð þörf á áframhaldandi uppbyggingu stúdentagarða og sú staðreynd að stjórnmálafólk reyni að standa í vegi fyrir henni, ólíðandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert