Enn lifir mögulega riðusmitað fé

Matvælastofnun hefur enn ekki fengið allar mögulega smitaðar kindur afhentar.
Matvælastofnun hefur enn ekki fengið allar mögulega smitaðar kindur afhentar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrstu niður­stöður úr grein­ingu riðusýna í Miðfjarðar­hólfi brýna mikilvægi þess að hefta fumlaust útbreiðslu riðuveiki, en enn eru bændur sem ekki hafa látið frá sér mögulega smitaðar kindur. 

Matvælastofnun birti niðurstöðurnar í gær, þar sem fram kom að útbreiðsla riðuveiki í hólfinu væri ekki mikil og því mikilvægt að taka mögulega smitbera úr umferð tafarlaust.

Í tilkynningu sinni hvetur Matvælastofnun þá bændur sem keyptu fé frá Syðri-Urriðaá og enn hafa ekki samþykkt að afhenda stofnuninni þær kindur, til að gera það.

Sigurborg Daðadóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun, segir í samtali við mbl.is að enn séu ekki allir þessir bændur búnir að samþykkja að afhenda stofnuninni kindurnar. 

„Þeir eru með frest til 19. júní til að afhenda okkur dýrin. Ég hef engar áhyggjur af því að bændurnir afhendi okkur þau ekki. Auðvitað er þetta mikið tilfinningamál en ég held að enginn vilji hafa kind sem er hugsanlega smituð í hjörðinni sinni og hvað þá að smita aðrar kindur,“ segir Sigurborg. 

Mikið áfall fyrir bændur

Það reynist bændum gjarnan mikið áfall þegar smit greinist í sauðfé þeirra. Í samtali mbl.is við Gunnar Þorgeirsson, formann Bændasamtaka Íslands, kemur fram að samtökin þjónusti bændur þeirra bæja þar sem riðusmit greinast.

„Við höfum í samstarfi við sveitarfélagið boðið fram sálfræðiaðstoð fyrir bændur sem lenda í þessum hremmingum. Það er ekki þægilegt að missa lífsviðurværið,“ segir Gunnar. Þá minnist hann einnig á að bændur fái bætur samkvæmt samningum við ríkið. 

Riðuónæmi í þróun

Gunnar greinir frá því að nú sé draumurinn að þróa hina svokölluðu ARR-arfgerð áfram í íslensku sauðfé svo það verði ónæmt fyrir riðu. „Það er langstærsta verkefnið til framtíðar,” segir Gunnar, en arfgerðin fannst í fyrsta skipti á Íslandi í byrjun síðasta árs í hrútnum Gimsteini.  

Aðspurð um ARR-arfgerðina og framtíðarhorfur í tengslum við hana, segir Sigurborg að ræktun á sauðfé með þessa arfgerð sé hafin, en tekur þó fram að það sé „bara á byrjunarreit.“

Sigurborg leggur áherslu á að nú sé mikilvægast að fjarlægja kindur sem eru hugsanlega smitaðar. Þær hafi umgengist veika kind frá Syðri-Urriðaá.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert