Gröfurnar mæta á KR-svæðið í haust

Fjölnota íþróttahús KR er efst fyrir miðri mynd. Völlurinn verður …
Fjölnota íþróttahús KR er efst fyrir miðri mynd. Völlurinn verður færður til að rýma fyrir íbúðarhúsum sem eru fremst á myndinni.

„Við erum mjög ánægð og þakklát fyrir að þetta sé komið á þennan stað,“ segir Þórhildur Garðarsdóttir formaður KR, en samþykkt var í borgarráði á fimmtudag að halda áfram undirbúningi að byggingu fjölnota íþróttahúss á KR-svæðinu við Frostaskjól.

Það þýðir að framkvæmdin verður loks að veruleika en hún hefur verið á teikniborðinu frá 2017. „Nú er búið að samþykkja kostnaðaráætlunina svo að halda megi áfram með hönnunina og fara í útboð með framkvæmdina. Þegar búið er að klára að hanna verkið í útboð tekur útboðsferli 8-10 vikur. Við vonumst til að geta byrjað að grafa seint í haust. Það væri óskandi,“ segir Þórhildur, sem kveðst jafnframt reikna með að framkvæmdir taki um 18 mánuði.

Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR.
Þórhildur Garðarsdóttir, formaður KR. mbl.is/Kristófer

Hið fjölnota íþróttahús á að rísa á miðju KR-svæðinu og verður hluti af miklum uppbyggingaráformum þar. Þau fela meðal annars í sér byggingu 100 íbúða sem standa munu straum af kostnaði að hluta. Íþróttahúsinu svipar nokkuð til fjölnota húss sem byggt var nýverið á ÍR-svæðinu í Mjódd. Það hús er 5.465 fermetrar en hús KR-inga verður öllu stærra, eða 6.772 fermetrar. Heildarkostnaður við bygginguna er áætlaður um 2.430 milljónir króna á verðlagi í febrúar 2023, að því er kemur fram í gögnum sem lögð voru fram í borgarráði.

Í húsinu verður íþróttasalur, hálfur knattspyrnuvöllur með tveggja hæða hliðarbyggingu meðfram langhlið salar. Í hliðarbyggingu er gert ráð fyrir búningsaðstöðu, taekwondo-íþróttasal, fjölnota íþróttasal sem þjónustar deildir félagsins svo sem glímu, pílu og fleiri, skáksal, aðstöðu fyrir tónmenntaskóla með 6-8 skólastofum og önnur stoðrými.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert