Andlát: Jónas Friðrik Guðnason

Jónas Friðrik Guðnason.
Jónas Friðrik Guðnason. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Jónas Friðrik Guðnason, skáld og skrifstofumaður, er látinn, 77 ára að aldri. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Húsavík sl. föstudag eftir erfiða sjúkdómslegu.

Jónas Friðrik var þjóðkunnur fyrir textasmíð fyrir Ríó tríó á árum áður. Textar hans voru gjarnan hnyttnir og urðu margir þeirra landsfleygir í flutningi Ríós tríós. En það voru fleiri tónlistarmenn sem sungu ljóðatexta Jónasar Friðriks og meðal þeirra má nefna Björgvin Halldórsson, en ýmsir listamenn hafa sungið um 200 texta eftir hann í gegnum árin.

Hann lagði einnig stund á hefðbundna vísnagerð og kom gjarnan fram með slíkan kveðskap á samkomum hagyrðinga.

Jónas Friðrik lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst og starfaði hjá Pósti og síma í Reykjavík um hríð. Á yngri árum stundaði hann ýmsa verkamannavinnu, við síldarsöltun og síldarbræðslu á Raufarhöfn, við vélgæslu í síldarverksmiðju og var verkstjóri hjá Síldarúrtvegsnefnd. Hann vann einnig hjá Kaupfélagi Raufarhafnar við ýmis störf. Hann vann hjá Jökli hf. á Raufarhöfn í þrjá áratugi, en síðustu 20 árin starfaði hann hjá sveitarfélaginu Norðurþingi við almenn skrifstofustörf.

Auk texta- og vísnagerðar fékkst Jónas Friðrik í tómstundum sínum talsvert við ljósmyndun og var algengasta viðfangsefnið í myndum hans ýmis afbrigði af birtu og gat hann þess í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu fyrir tæpum áratug, að hann ætti í sínum fórum margar myndir og fjölbreytilegar af sólarupprásinni.

Jónas Friðrik var virkur í starfi Leikfélags Raufarhafnar í fjölmörg ár og kom fram í ýmsum uppfærslum leikfélagsins. Hann tók líka þátt í starfi Ungmennafélagsins Austra á Raufarhöfn og gegndi m.a. formennsku þar lengi. Hann sat einnig í stjórn FER, Félags eldri borgara á Raufarhöfn. Jónas Friðrik var ókvæntur og barnlaus.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert