Veldur vonbrigðum

Kallað er á mikilvægar úrbætur við Skógarströnd og víðar.
Kallað er á mikilvægar úrbætur við Skógarströnd og víðar. mbl.is/Sigurður Bogi

Vonbrigðum veldur, segja Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, að á næstu fimm árum eigi aðeins að verja 700 milljónum kr. til nýframkvæmda við stofnvegi í landshlutanum, sem sé mun lægra en í öðrum landshlutum. Þetta segir í umsögn SSV um samgönguáætlun innviðaráðherra sem verið hefur til umsagnar að undanförnu.

SSV segja að stofnvegaframkvæmdir næstu árin verði víðast á landinu talsvert umfangsmeiri en á Vesturlandi. Verðmiði verkefna næstu ára á Austurlandi og Vestfjörðum séu rúmir 9 ma. og Suðurlandi séu ætlaðir tæpir 19 ma. kr. Mörg stór verkefni í vegagerð bíði þó á Vesturlandi; svo sem uppbygging 50 km langs vegar um Skógarströnd sem tengir saman Dali og Snæfellsnes. Þar hafi umferð aukist mikið á síðustu árum vegna atvinnusóknar og ferðaþjónustu.

Bent er sömuleiðis á að miður sé að framkvæmdir við Uxahryggjaveg, sem er á milli Þingvalla og Lundarreykjadals, þurfi að bíða. Þessi vegur, sem tengir saman Vesturland og Suðurland, hafi verið byggður upp og endurbættur að stórum hluta á síðustu árum sem sé vel.

Ennþá sé þó eftir að leggja slitlag á um 22 km kafla efst í Lundarreykjadal. Nú sé hins vegar búið að fresta þeirri framkvæmd til ársins 2034 samkvæmt samgönguáætlun þeirri sem fyrir liggur. Slíkt sé ekki boðlegt, því vegur þessi auki samskipti og samstarf íbúa landshluta, aukinheldur að vera mikilvægur fyrir ferðaþjónustuna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert