Greinir á um tryggingu vatnslagna ef til goss kæmi

Ekki er ljóst hver myndi tryggja tjón ef eldgos eyðileggur …
Ekki er ljóst hver myndi tryggja tjón ef eldgos eyðileggur starfsemi virkjunar á Svartsengi, mögulega með þeim afleiðingum að vatnslagnir myndu springa í húsum fólks. Samsett mynd

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, forstjóri Náttúruhamfaratryggingu Íslands, segir í samtali við mbl.is að náttúruhamfaratrygging þyrfti ekki tryggja það tjón sem yrði ef vatnslagnir í húsum yrðu fyrir skemmdum ef heitt vatn hættir að berast vegna mögulegs goss í grennd við Svartsengi.

Jón Gunnar Ásbjörnsson, lögmaður á Landslög-lögfræðistofu, telur þetta ekki jafn skýrt.

Miklar áhyggju eru uppi um það að allt verði heitavatnslaust á Suðurnesjum ef virkjunin á Svartsengi og starfsemi hennar fellur út vegna mögulegs goss á svæðinu. 

Burtséð frá öllum þeim vandamálum sem því skyldi fylgja að fá ekki heitt vatn þá er líka sú hætta uppi að frysta myndi í vatnslögnum og þær springa ef heitt vatn hættir að berast um þær. 

Því myndi fylgja mikið fjárhagslegt tjón.

Segir tjónið vera óbeint

Spurð að því hvort að Náttúruhamfaratrygging Íslands tryggi tjón sem gæti orðið í vatnslögnum í húsum fólks, af þessum orsökum, segir Hulda að um sé að ræða óbeint tjón þar sem þetta væri afleiðing af því að virkjunin myndi stoppa.

Segir hún náttúruhamfaratryggingar aðeins bæta beint tjón á eignum.

„Þetta fellur ekki undir náttúruhamfaratryggingu Íslands,“ segir Hulda.

Telur líklegt að náttúruhamfaratrygging þurfi að tryggja slíkt tjón

Jón Gunnar telur hins vegar líklegt að tjón á lögnum innanhúss við þessar aðstæður falli undir náttúruhamfaratryggingar.

Hann segir að lagnir innanhúss falli undir skyldutryggingar þar sem lagnirnar séu hluti eða fylgifé fasteignarinnar sjálfrar. Húseignir, innbú og lausafé, sem er brunatryggt hjá vátryggingafélagi með íslenskt starfsleyfi, er tryggt gagnvart náttúruhamförum.

„Þetta kemur eldgosinu beint við myndi ég segja. Þegar þú ert með hluta sem fellur undir skyldutryggingu sem verður fyrir tjóni vegna atburða sem vátryggt er gegn, eins og eldgosi, þá fæ ég ekki séð að það sé annað en beint tjón sem er vátryggt,“ segir hann og bætir við:

„Ég tel að með áskilnaði um beint tjón í lögum um náttúruhamfaratryggingu sé fremur verið að undanskilja óbeint tjón eins og tjón vegna afnotamissis, missis hagnaðar og þess háttar, en ekki tjón á fasteigninni sjálfri.“ 

Virkjunin í Svartsengi. Miðja landrissins er talin vera þar nærri.
Virkjunin í Svartsengi. Miðja landrissins er talin vera þar nærri. mbl.is/Hákon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert