„Hún er ekkert verri fyrir það“

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna deildu um tillögu Sjálfstæðisflokksins sem …
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna deildu um tillögu Sjálfstæðisflokksins sem tekin var fyrir á borgarstjórnarfundi í dag. Samsett mynd

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, áttu í líflegum umræðum um tillögu Sjálfstæðisflokksins um afdrif niðurstaðna PISA-könnunarinnar sem tekin var fyrir á borgarstjórnarfundi í dag.

Tillaga Sjálfstæðisflokksins snýr að því að kallað verði eftir niðurstöðum PISA-könnunarinnar frá Menntamálastofnun þar sem niðurstöðum skuli skipt eftir grunnskólum og skólastjórnendur upplýstir um þær.

Tillögunni var vísað til skóla- og frístundaráðs, með öllum greiddum atkvæðum borgarfulltrúa, að undanskildu atkvæði Lífar.

Menntastefnan froðusnakk

Í ávarpi sínu sagði Kjartan m.a. að æskilegt væri að upplýsa ekki eingöngu skóla og skólastjórnendur, heldur einnig viðkomandi skólaráð og stjórnir foreldrafélaga um niðurstöður þeirra skóla.

Kvaðst Kjartan einnig óttast að tillagan yrði svæfð með einhverjum hætti fengi hún ekki framgang fljótt. Þá hefðu umræður um umbætur í menntakerfinu oft komið upp áður og sömu aðferðirnar verið notaðar of lengi að hans mati. 

„En góðir borgarfulltrúar, sömu aðferðirnar hafa verið notaðar allt of lengi. Það var talað um að ný menntastefna myndi breyta öllu, en þegar maður les í þessa menntastefnu okkar þá er hún að mestu leyti froðusnakk. Það var ekkert í menntastefnunni sem beinlínis kallaði eftir því að það sem nauðsynlegt væri að gera væri að auka grunnfærni nemenda okkar,“ sagði Kjartan í ræðu sinni.

Gögnin ekki niðurbrjótanleg

Þegar Kjartan hafði lokið máli sínu fór Líf með andsvar.

„Talandi um endurtekningu og að dusta rykið af gömlum ræðum, þá er þessi tillaga Sjálfstæðisflokksins ekkert annað en endurvinnsla og margunnin tillaga,“ sagði Líf.

Hún kvaðst taka undir með Kjartani að vont væri að svæfa tillöguna, en sagðist heldur telja það rétt að fella hana alfarið niður vegna þess að hlutverk PISA væri að taka út skólakerfi landa, en ekki einstakra skóla. 

„Þar fyrir utan er PISA rannsóknin unnin þannig að þessi gögn eru ekki niðurbrjótanleg á hvern skóla fyrir sig í öllum þessum löndum sem að könnunin tekur til, heldur er þetta leikur að tölfræði sem að fólk hefur unnið sig út frá eftir að þessar niðurstöður liggja fyrir til að reikna út á skóla,“ sagði Líf. 

„Þannig að ég tek vissulega undir með Finnum og Eistum að kynna beri niðurstöður PISA fyrir öllum skólum landsins en ekki með einhverju sérstöku niðurbroti og þess vegna hefði ég frekar viljað fella þessa tillögu.“

Aðferðafræði vinstri meirihlutans fullreynd

Að andsvari Lífar loknu skaut Kjartan föstum skotum í átt að Vinstri grænum vegna gagnrýni Lífar í garð tillaga sem teknar væru fyrir oft og mörgum sinnum. 

„Það er alveg rétt hjá andsvaranda að þessi tillaga er að mörgu leyti bara sama tillaga og hefur verið flutt oft áður og endurunnin, en hún er ekkert verri fyrir það. Góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Ég er viss um að margar tillögur Vinstri Grænna eru fluttar aftur og aftur ef þær hljóta ekki framgang, en við flytjum hana núna vegna þess að við teljum að hún eigi aldrei betur við en núna,“ sagði Kjartan.

„Sambærilegar tillögur hafa verið fluttar áður. Þær hafa verið felldar vegna þess að vinstri meirihlutar í gegnum tíðina hafa viljað hjakka í sama farinu og halda áfram þessari aðferðafræði sem hefur verið stunduð. Við teljum að það sé fullreynt,“ bætti Kjartan við. 

„Án þess að flana að neinu þá viljum við að það sé gripið til nýrra aðferða í menntamálum í Reykjavík og það að samþykkja þessa tillögu gæti verið mjög góð byrjun á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert