Meiri skjálftavirkni í dag

Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir svart hraunið sem …
Horft til norðurs með Sundhnúkagígaröðinni og yfir svart hraunið sem rann þegar gaus í desember. Ljósmynd/Hörður Kristleifsson/@h0rdur

Um 40 skjálftar hafa mælst í kvikuganginum við Svartsengi frá miðnætti og var sá stærsti 2,2 að stærð. Skjálftavirkni hefur aukist á milli daga. 

Staðan er þó óbreytt er varðar líkur á eldgosi að sögn Pálma Erlendssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands. 

Í samtali við mbl.is segir hann að GPS-mælingar séu á sama róli og þær hafa verið undanfarna daga. 

Er hættumatskort Veðurstofunnar var uppfært á fimmtudag kom fram að líklegt væri að kvikumagnið nái svipuðu rúmmáli og fyrir eldgosið 14. janúar á næstu tveimur vikum og jafnvel dögum. Ekki er víst að fyrirvarinn verði eins langur og í síðasta eldgosi.

40 skjálftar í kvikuganginum

„Það er heldur meiri skjálftavirkni í dag en í gær,“ segir Pálmi og bætir við að það gæti verið af því að betra veður sé í dag. 

Er eitthvað sem bendir til aukinna hreyfinga?

„Nei, ekki akkúrat núna. Það er við það sama ástand og búið er að vera undanfarna daga,“ segir Pálmi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert