Leggja til að RÚV ohf. verði lagt niður

Óli Björn Kárason ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram …
Óli Björn Kárason ásamt fleiri þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um endurskoðunar á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Samsett mynd

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram frumvarp um endurskoðun á rekstrarumhverfi fjölmiðla. Kveður það m.a. á um að opinbert hlutafélag um Ríkisútvarpið verði lagt niður og að til verði ríkisstofnun á fjárlögum með sjálfstæða stjórn. 

Nái frumvarpið fram að ganga verður formbreyting á rekstri Ríkisútvarpsins og skattalegar ívilnanir fyrir sjálfstæða fjölmiðla innleiddar í stað beinna ríkisstyrkja. Þá verða skorður settar við samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins sem verður m.a. ekki heimilt að afla kostunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjóra þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Vilja jafna stöðuna

„Með frumvarpinu viljum við jafna stöðuna á fjölmiðlamarkaði, draga úr forréttindum ríkisfjölmiðils og styrkja stöðu sjálfstæða fjölmiðla,“ er haft eftir Óla Birni Kárasyni, fyrsta flutningsmanni frumvarpsins, í tilkynningunni.

„Við þurfum að viðurkenna að það voru mistök að gera Ríkisútvarpið að opinberu hlutafélagi. Þá ætti öllum að vera ljóst að fyrirkomulag fjármögnunar með álagningu útvarpsgjalds er óeðlileg. Klippt hefur verið á milli fjármögnunar og þróunar rekstrarkostnaðar vegna lögbundinna verkefna.“

Segja þjónustuna ekki hafa breyst

Í greinargerð frumvarpsins segir að fjárveitingar til Ríkisútvarpsins ráðist af fjölda skattgreiðenda á aldrinum 16 til 67 ára, fjölda lögaðila og fjárhæð útvarpsgjalds.

Aftur á móti sé hlutverk og þjónusta Ríkisútvarpsins nánast sú sama óháð fjölda skattgreiðenda hverju sinni.

Segir í greinargerðinni að auknar tekjur Ríkisútvarpsins, vegna fjölgunar greiðenda útvarpsgjalds, séu ekki í samræmi við þær skyldur sem á því hvílir. 

Ráðherra staðfesti gjaldskrá

Hvað varðar skorður við samkeppnisrekstri Ríkisútvarpsins kveður frumvarpið á um að Rúv verði ekki heimilt að afla kostunar og eru jafnframt stífar reglur settar á um auglýsingar.

„Ríkisútvarpinu verður heimilt að birta auglýsingar á grundvelli gjaldskrár sem staðfest hefur verið af ráðherra og birt opinberlega. Óheimilt verður að veita nokkurs konar afslátt af gjaldskrá eða stunda beina sölu auglýsinga. Hámarksauglýsingatími á hverri klukkustund verður fimm mínútur,“ segir í tilkynningunni um frumvarpið.

Þá er lagt til að beinir ríkisstyrkir til einkarekinna fjölmiðla leggist af en á móti muni sjálfstæðir fjölmiðlar njóa skattaívilnana sem séu samræmdar og gegnsæjar.

„Annars vegar með undanþágu frá greiðslu tryggingagjalds upp að vissu marki og hins vegar með því að fella niður virðisaukaskatt af áskriftum innlendra fjölmiðla; prentmiðlum, netmiðlum og ljósvakamiðlum. Hlutfallslega fæst sama lækkun á hvern fjölmiðil miðað við launakostnað og áskriftartekjur og er skattaívilnunin þannig byggð á rekstri einstakra fjölmiðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert