Vilja nýtt íbúðasvæði í Úlfarsárdal

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilja að skipulagt verði nýtt íbúðasvæði fyrir …
Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilja að skipulagt verði nýtt íbúðasvæði fyrir 3 til 4 þúsund manns í Úlfarsárdal. mbl.is/Sigurður Bogi

„Þetta er ánægjuleg stefnubreyting hjá Reykjavíkurborg og mikilvægt að sú kyrrstaða í húsnæðismálum sem vinstri meirihlutinn í borginni hefur viðhaldið undanfarin ár verði rofin, ekki síst í ljósi þess mikla húsnæðisskorts sem ríkir á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, í samtali við Morgunblaðið.

Til þeirra tíðinda dró á fundi borgarstjórnar sl. þriðjudag að tillögu sjálfstæðismanna um aukna uppbyggingu í Úlfarsárdal var vel tekið og var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn einu að vísa henni til átakshóps um húsnæðisuppbyggingu í borginni. Það var borgarstjóri sem lagði til þá málsmeðferð, en borgarfulltrúi Vinstri grænna var því einn andvígur.

Samþykktin lýtur að því að hafist verði handa við skipulagningu íbúðarsvæðis við Halla og í Hamrahlíðalöndum í Úlfarsárdal og byggt verði á samþykktu deiliskipulagi fyrir svæðið frá árinu 2007 sem verði uppfært eftir þörfum. Fela á umhverfis- og skipulagssviði að endurskoða gildandi deiliskipulag og annast aðra skipulagsvinnu.

„Það er mikill skortur á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og brýnt að skoðaðar verði allar leiðir til að auka lóðaframboð fyrir íbúðarhúsnæði. Reykjavíkurborg á mikið land sem auðvelt er að skipuleggja fyrir íbúðarbyggð með skömmum fyrirvara. Borgin getur brugðist myndarlega við því erfiða ástandi sem ríkir á húsnæðismarkaði og á að gera það án tafar. Stóraukið framboð lóða fyrir íbúðarhúsnæði yrði mikilvægt framlag til lausnar húsnæðisvandans sem er nauðsynlegt að bregðast við, enda um bráðavanda að ræða,“ segir Kjartan.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert