Konur frá Palestínu segja sögu sína á kynjaþingi

Mynd frá kvennaverkfallinu árið 2023
Mynd frá kvennaverkfallinu árið 2023 Kristinn Magnússon

Kynjaþing Kvenréttindafélags Íslands verður haldið á morgun. Á þinginu verða meðal annars  pallborðsumræður með konum frá Palestínu, sem þekkja aðstæður kvenna á hernumdum svæðum og segja frá reynslu sinni af kvenréttindum.

„Í staðinn fyrir að vera ræða um fólk eða ræða um aðstæður án fólksins sem er í aðstæðunum þá erum við að búa til vettvang þar sem þær geta sagt okkur hver upplifun þeirra er í raun og veru” segir Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdarstýra Kvenréttindafélagsins, í viðtali við mbl.is. 

Þingið verður haldið í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og byrjar klukkan 12 til kl. 17, en þetta er í sjötta sinn sem það er haldið.

Markmið Kynjaþingsins er fyrst og fremst að ýta undir umræðuna um jafnrétti. Er þema þingsins í ár samtvinnun og kröfur kvennaverkfalls 2023, að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá félaginu. 

Stjórnmálakonur úr átta flokkum ætla að mæta

Á þinginu verða stjórnmálakonur frá átta mismunandi flokkum og verða með pallborðsumræður um pólitíska kvennasamstöðu. 

Þá munu fjórir kvenkyns forsetaframbjóðendur mæta til þess að ræða um jafnrétti, þær Halla Hrund Logadóttir, Halla Tómasdóttir, Helga Þórisdóttir og Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir.

Þá verður fjallað um stöðu mæðra fatlaðra barna, um veruleika unglinga í dag og listafólk ræðir um baráttuna gegn ofbeldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert