Spá hækkun á framleiðslukostnaði matvæla

SÍ og SAFL telja að gjaldskrárbreytingin gæti leitt af sér …
SÍ og SAFL telja að gjaldskrárbreytingin gæti leitt af sér hækkun matvælaverðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) telja nýja gjaldskrá Matvælastofnunar (MAST) leiða af sér hækkun á framleiðslukostnaði matvæla og gagnrýna stuttan fyrirvara við gildistöku gjaldskrárbreytinganna.

Sigurður Helgi Birgisson, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI, segir gjaldskrárbreytinguna vera til komna til þess að mæta rekstrarhalla MAST á kostnað matvælaframleiðanda.

Létu af hækkuninni á síðasta ári

Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi matvælaráðherra, lét af hækkuninni á síðasta ári að loknu samráðferli á þeim forsendum að ekki kæmi til greina að taka ákvarðanir sem gætu leitt til hærra matvælaverðs.

Fyrir vikið lagði ráðuneytið drög að nýrri gjaldskrá MAST í samráðsgátt. Sú gjaldskrá hefur nú verið undirrituð af Bjarkey Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra og segja SI og SAFL hana byggja á sama grunni og sú sem Svandís lét af.

Sigurður bendir á að í ljósi efnahagsástandsins þá hafi gjaldskráin mætt töluverðri andstöðu fyrir ári síðan.

Þá hafi Svandís stöðvað hækkunina en nú í byrjun mánaðar sé búið að undirrita nýja gjaldskrá með einhverjum breytingum sem taki gildi 1. júní næstkomandi.

„Hún stöðvaði þetta síðasta haust og svo heyrðist ekkert meir um það og svo kemur þetta svona óvænt fram. MAST hafa sagt að þetta sé mildari útgáfa og að þau hafi ekki farið í alla hækkunina, en þau gera ráð fyrir að öll hækkunin verði komin í gagnið á næstu tveimur eða þremur árum,“ segir hann.

Bæta upp rekstrarhalla á kostnað framleiðenda

Hann segir breytinguna tilkomna eftir greiningu KPMG á rekstri stofnunarinnar og matvælaeftirlitsins. Greiningin hafi leitt í ljós vöntun á innheimtu gjalds fyrir daglegt eftirlit stofnunarinnar í sláturhúsum um rúmar 217 milljónir króna, og innheimtu gjalds fyrir almennt eftirlit um tæpar 260 milljónir króna.

„Þessi gjaldskrárbreyting er í rauninni til þess að sporna gegn rekstrarhalla stofnunarinnar, þannig tilgangur breytingarinnar er að stoppa upp í tæplega fimm hundruð milljóna gat, sem á að innheimta hjá þjónustuþegum eða þá matvælaframleiðendum.“

Lögum ekki fylgt sem skyldi

SI og SAFL gera einnig athugasemd við stuttan fyrirvara á gildistöku breytinganna, en samtökin voru fyrst upplýst um fyrirhugaða gildistöku þremur vikum áður en hún kom til framkvæmda. 

Að mati samtakanna hafi lögbundnu kynningar- og samráðsferli gjaldtökuheimildar ekki verið fylgt sem skildi. Leita skuli umsagna hagsmunaaðila og kynna fyrirhugaðar breytingar að minnsta kosti mánuði fyrir gildistöku. 

„Matvælaframleiðsla í eðli sínu er viðkvæm fyrir utanaðkomandi áhrifum, þannig að fyrirsjáanleiki í rekstri er lykilatriði og það kemur illa við framleiðendur þegar það er ráðist í svona breytingar án hæfilegs fyrirvara,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert