Sýknaður um brot í nánu sambandi

Landsréttur staðfesti sýknudóm.
Landsréttur staðfesti sýknudóm. mbl.is/Jón Pétur

Maður sem sakaður var um tvö nauðgunarbrot í nánu sambandi hefur verið sýknaður í Landsrétti. Staðfesti hann þar með dóm úr héraði sem einnig sýknaði manninn.

Meint brot eru gegn eiginkonu mannsins. Í fyrra skiptið þegar þau bjuggu saman en í síðara skiptið þegar þau bjuggu í sundur. Við aðalmeðferð málsins voru spilaðar upptökur af framburði beggja í héraðsdómi. Taldi dómurinn ekkert koma fram sem breytti sönnunarmati héraðsdóms.

Fram kemur í héraðsdómi að maðurinn og konan hafi kynnst árið 2019 og gengið í hjónaband 2021. Þau keyptu sér húsnæði saman og var manninum gefið að sök að hafa nauðgað konunni í október sama ár á heimili þeirra. Síðara atvikið hafi hins vegar verið í febrúar árið 2022 á heimili hennar.

Ólík upplifun 

Annað atvikið sem maðurinn var sakaður um gerðist í sturtu að heimili þeirra. Segir hún þáverandi eiginmann sinn hafa suðað um kynlíf en hún hafnað því. Hann hafi hins vegar elt hana inn í sturtu þar sem hann fékk vilja sínum framgengt. Hún hafi frosið án þess að mæla orð.

Hann lýsir málunum á svipaðan hátt nema á þann veg að engin nánd hafi veið í samræði þeirra. Hún hafi ekki mælt orð og honum hafi liðið óþægilega eftir á en ekki áttað sig á upplifun hennar um nauðgunarbrot.

Hann segist ekki hafa munað eftir því að hún hafi hafnað honum um kynferðismök í aðdraganda atviksins en að hún hafi gert honum ljóst að hún hafi ekki viljað hann í sturtuna.

Stunduðu kynlíf eftir atvikið

Hitt atvikið átti sér stað í svefnherbergi á heimili brotaþola. Þá hafi hann gert sig líklegan til samræðis við hana en hún sagst vera sofandi. Sagði hún að hann hafi fært fingur í leggöng hennar og vakið hana með þeim hætti. 

Hann segir hins vegar að hún hafi verið að stynja og gert sig líklega til að vilja kynlíf. Hann hafi hins vegar hætt atlotum sínum þegar hann áttaði sig á því að hann vakti hana. 

Bæði segjast þau hafa í framhaldinu fært sig út úr herberginu þar sem barn hennar lá. Haldið var í nærliggjandi herbergi þar sem þau stunduðu kynlíf í 10 mínútur að hans sögn.

Taldi dómurinn að ósannað væri að maðurinn hefði beitt ólögmætri nauðung og sýknaði hann.

Vísað var til þagnar hennar í öðru tilvikinu þegar atvik átti sér stað og að hún hafi sofið við hlið hans eftir það. Í hinu tilvikinu þótti sýnt að hinn ákærði hefði hætt atlotum um leið og hann hafi áttað sig á því að konan væri sofandi áður en þau stunduðu svo kynlíf með samþykki beggja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert