Telur samning við Kynnisferðir hamla samkeppni

Umferðarmiðstöðin BSÍ í Reykjavík.
Umferðarmiðstöðin BSÍ í Reykjavík. mbl.is/Eggert

Félag atvinnurekenda hefur sent borgarstjóra erindi þar sem farið er fram á fund til að ræða hvernig keppinautar fólksflutningafyrirtækisins Kynnisferða geti fengið aðstöðu í Umferðarmiðstöðinni við Vatnsmýrarveg (BSÍ), sem er í eigu Reykjavíkurborgar.

FA telur samning borgarinnar við Kynnisferðir um leigu á Umferðarmiðstöðinni samkeppnishamlandi. Samkeppniseftirlitið og innviðaráðuneytið fengu afrit af erindinu.

Í bréfi FA til borgarstjóra er vitnað til áforma borgarinnar, sem birt voru þegar Reykjavíkurborg eignaðist Umferðarmiðstöðina árið 2012. Þá stóð til að bjóða öðrum þjónustuaðilum en Kynnisferðir aðstöðu í húsinu svo það gæti orðið „öflug skiptistöð í samgöngum sem tengist þjónustu við ferðamenn og flugsamgöngur,“ segir í tilkynningu.

Rútur frá Kynnisferðum.
Rútur frá Kynnisferðum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fram kemur að borgin hafi áfram miðað við að Umferðarmiðstöðin verði miðstöð almenningssamgangna í miðbæ Reykjavíkur og stefnt að þróun alhliða samgöngumiðstöðvar á U-reitnum svokallaða, þar sem miðstöðin stendur. Núverandi meirihlutaflokkar í borgarstjórn hafi jafnframt bókað í borgarráði að núverandi staðsetning samgöngumiðstöðvarinnar sé „framúrskarandi“ og feli í sér mikil tækifæri fyrir almenningssamgöngur.

Þessi áform borgarinnar séu enn ekki orðin að veruleika.

„Á meðan er staðan hins vegar sú að eitt fyrirtæki af mörgum í fólkflutningum situr eitt að aðstöðu í eigu borgarinnar á framúrskarandi stað,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert