Komu niður á heitt vatn í Tungudal

Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hafa um hríð borað eftir heitu …
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða hafa um hríð borað eftir heitu vatni. Á mynd má sjá þá starfsmenn bora fyrstu holunar í Tungudal á Ísafirði sumarið 2023. mbl.is/Helgi Bjarnason

Heitavatnsæð fannst undir Ísafirði í dag. Of snemmt er að segja hvort jarðhiti geti komið í stað rafkyndingar í bænum „en þetta er virkilega góð vísbending og mjög jákvæðar fréttir,“ segir orkubússtjóri Vestfjarða.

Guðmundur Ármann Böðvarsson, verkefnastjóri hjá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða (Ræktó), staðfestir í samtali við mbl.is að vatnsæðin hafi fundist í Tungudal í um 480 metra dýpi.

Heitavatnsæðin fannst í rannsóknarholu og skilar um 7-10 lítrum 55 gráða heitu vatni á sekúndu. Ááætlað er að bora niður allt að 700 metra.

„Það á alveg eftir að gera prófanir og rannsóknir,“ segir Guðmundur við mbl.is.

Vinnsluhola gæti skipt út rafkyndingu

Orkubú Vestfjarða hefur um hríð leitað að heitu vatni á Vestfjörðum, m.a. til þess að koma niður vinnsluholu á Ísafirði. Þannig væri hægt að skipta út rafkyndingu í hitaveitu á Ísafirði og hægt að nýta rafmagnið í annað.

Jarðhitaleit á Vestfjörðum hefur litlu skilað enn sem komið er, ef frá er talinn jarðhiti sem fannst á Drangsnesi sem ætlað er að geti þrefaldað afköst hitaveitunnar á staðnum.

Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.
Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða.

Þessi rannsóknarborhola gæti orðið að vinnsluholu ef vatn finnst í nægilegu magni, segir Elías Jónatansson orkubússtjóri í samtali við mbl.is. Hann ítrekar þó að enn sé of snemmt að segja til hvort holan gæti orðið að vinnsluholu. Það kemur í ljós þegar vísindamenn hafa rannsakað holuna.

„Það er of snemmt að fagna því að það sé fundið nægilegt heitt vatn fyrir Ísafjörð,“ segir Elías. „En þetta er virkilega góð vísbending og mjög jákvæðar fréttir.“

Hann segir að efsti hluti holunnar verði nú fóðraður áður en haldið verður dýpra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert