Ákærðir fyrir að sviðsetja umferðarslys

Mennirnir reyndu að svíkja bætur út úr tryggingafélaginu VÍS.
Mennirnir reyndu að svíkja bætur út úr tryggingafélaginu VÍS. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir karlmenn hafa verið ákærðir fyrir að sviðsetja umferðarslys í Hafnarfirði árið 2021 og reynt að svíkja út bætur frá tryggingafélagi. Eru mennirnir ákærðir fyrir tilraun til fjársvika.

Ákæran í málinu er birt með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu þar sem annar mannanna er búsettur erlendis og ekki hefur tekið að birta honum ákæruna með öðrum hætti.

Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri, en í ákærunni kemur fram að þeir hafi sett á svið umferðarslys á gatnamótum Breiðhellu og Gjáhellu í Hafnarfirði í apríl 2021 í því skyni að svíkja út vátryggingabætur á grundvelli kaskótryggingar og lögboðinnar ökutækjatryggingar hjá VÍS. Var um að ræða skemmdir á tveimur ökutækjum.

Lýst er því hvernig sá sem búsettur er erlendis hafi ekið norður Gjáhellu og stöðvað ökutækið við gatnamótin fyrrnefndu. Þar var hann kyrr í um 40 sekúndur, en ók svo bifreiðinni hægt í veg fyrir hina bifreiðina, sem maðurinn sem búsettur er á Íslandi, ók. Varð þetta þess valdandi að árekstur ökutækjanna varð á gatnamótunum.

Mennirnir undirrituðu báðir tjónstilkynningu sama dag og sendi annar þeirra hana inn til VÍS.

Segir í ákærunni að með þessu hafi þeir beitt blekkingum til að fá VÍS til að bæta tjón, en áætlaður kostnaður af yfirtöku bifreiðanna var 800 þúsund og 400 þúsund krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert