Aukinn áhugi ungs fólks á kosningunum

Búið var að senda út í kringum 11 þúsund kjörseðla …
Búið var að senda út í kringum 11 þúsund kjörseðla á 200 staði víðs vegar um heiminn svo Íslendingar erlendis gætu kosið nýjan forseta. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við finnum fyrir miklum áhuga á forsetakosningunum,“ segir Sigurlína Andrésdóttir, sérfræðingur hjá íslenska sendiráðinu í Kaupmannahöfn, en flestir Íslendingar erlendis búa í Danmörku.

„Það hefur sérstaklega aukist þátttakan núna í vikunni en hún hefur aukist jafnt og þétt. Það eru 800 manns búnir að kjósa hjá okkur í Kaupmannahöfn, og þar af kusu 200 á opnum degi á laugardaginn. En við erum ekki komin með nákvæmar tölur frá kjörræðismönnum enn, en ég myndi halda að það séu allavega komnir 150 í viðbót,“ bætir hún við.

Margir kusu um helgina

Sigurlína segir að áhuginn á þessum forsetakosningum komi líka fram í því að það hafi talsvert mikið verið hringt í sendiráðið til að spyrja um kosningarnar. „Það er svolítið um að fólk hafi verið að hringja sem hefur búið hér lengi og athuga hvort það sé á kjörskrá.“

Breytt kosningalög tóku gildi 1. janúar 2022, en þar voru reglur rýmkaðar þannig að fólk gat kosið þótt það hefði búið erlendis í allt að 16 ár, en var áður 8 ár. Hins vegar eru lögin þannig að ef fólk hefur búið í 16 ár erlendis og hefur fallið af kjörskrá, þá þarf að sækja sérstaklega um rétt til að kjósa og það þarf að gerast fyrir 1. desember árið á undan. En það var ekki hægt í þessu tilfelli þar sem ekki var vitað að Guðni Th. Jóhannesson myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.

„En við finnum mikinn áhuga á kosningunum frá ungu fólki, sem er ofboðslega jákvætt,“ segir Sigurlína.

Færri kosið í Noregi

Í Noregi er sama staða ekki uppi á teningunum. „Í síðustu forsetakosningum 2016 var þátttakan í sendiráðinu í Osló hátt í 400 manns en nú hafa 170 kosið,“ segir Karí Jónsdóttir, sérfræðingur hjá sendiráðinu í Osló.

Hún segir Íslendinga í Noregi mjög dreifða um landið og það gæti hugsanlega verið skýring á minni áhuga en í Danmörku. „Við lögðum til núna að fólk myndi kjósa fyrrihlutann í maí, því póstþjónusta hefur verið talsvert erfið milli landa og hefur ekki lagast mikið.“

Umfjöllunina má nálgast í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert