„Samfylking fari einungis í stjórn á eigin forsendum"

Frá landsfundi Samfyllkingarinnar í dag.
Frá landsfundi Samfyllkingarinnar í dag. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar, sagði ljóst að Samfylkingin muni ekki fara í ríkisstjórn að loknum kosningum til þess eins að hjálpa Vinstri grænum í væli um vonsku heimsins og til að hrekja bankana úr landi. Þá sagði hann flokkinn heldur ekki ætla að taka við hlutverki Framsóknarflokksins sem aukadekk íhaldsins.

Samfylkingin muni einungis fara í stjórnarsamstarf á sínum eigin forsendum sem m.a. felist í kröfunni um endurvakningu blandaðs hagkerfi og breytinga á skólakerfinu. Með svari sínu svaraði Árni spurningu Margrétar Frímannsdóttur um sýn hans á hugsanlegt stjórnarsamstarfs á næsta kjörtímabili á landsfundi Samfylkingarinnar í dag.

Kristrún Heimisdóttir sagðist vilja stuðla að því að farið verði yfir prófkjörsmál flokksins. Þá kvaðst hún vilja endurreisa lýðræði á Íslandi sem stjórnarflokkunum tveimur þyki hallærislegt og þeir hafi grafið undan á undanförnum árum. jafnframt tók hún sérstaklega fram að hún sjái enga sérstaka samherja í Vinstri grænum í þessu máli.

Árni Páll og Kristrún voru á meðal nýrra frambjóðenda sem beðnir um að gera grein fyrir áhersluatriðum sínum, komist þeir á þing. Við sama tækifæri sagðist Róbert Marshall ætla að leggja sérstaka áherslu á jafnréttismál, málefni barna og eldri borgara.

Guðmundur Steingrímsson sagðist vilja gera það að sínu fyrsta verki komist hann á þing að stofna nefnd eða starfshóp um endurreisn almannatryggingakerfisins. Þá kvaðst hann vilja leggja áherslu á málefni feðra og þá sérstaklega forsjárlausra feðra og feðra með sameiginlegt forræði.

Helga Vala Helgadóttir kvaðst hins vegar vilja leggja sérstaka áherslu menntamál, samgöngu- og fjarskiptamálmál í landsbyggðarmálum en hún var spurð sérstaklega um þann málaflokk.

Guðný Hrund Karlsdóttir var spurð sérstaklega um jafnréttismál og svaraði hún því til að í jafnréttismálum skipti fjölbreytileiki ekki minna máli en fjöldi. Þá kvaðst hún varla geta svarað þeirri spurningu hvers vegna fjölga þurfi konum á þingi þar sem konur séu helmingur þjóðarinnar og svarið hljóti því að vera augljóst.

Margrét Kristín Helgasdóttir var spurð að því hvað hún vildi gera til að tryggja jafnrétti, frelsi og lýðræði og sagði hún að til þess væri nauðsynlegt að koma Samfylkingunni í stjórn á næsta kjörtímabili. Þá kvaðst hún vilja leggja sérstaka áherslu á jafnrétti á milli íbúa landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis og eldri og yngri borgara.

mbl.is