„Eins og hvítþvegin bleyjubörn“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist sannfærð um að Sjálfstæðisflokkurinn muni rétta …
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segist sannfærð um að Sjálfstæðisflokkurinn muni rétta hlut sinn þegar umræðan fer að snúast um hugmyndafræði. mbl.is/Ómar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, segir að niðurstöður skoðanakönnunar Capacent um fylgi stjórnmálaflokkanna séu vonbrigði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  

„Auðvitað eru þessar tölur vonbrigði enda endurspegla þær ekki það sem við höfum verið að fá úr kosningum,“ segir Þorgerður, en Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 25,7% fylgi á landsvísu, sem er örlítið betra fylgi en í síðustu könnun en þá mældist flokkurinn með 25,4%.

Á brattann að sækja
Þorgerður segir að það hafi verið á brattann að sækja fyrir Sjálfstæðisflokkinn að undanförnu. Hún segist hins vegar sannfærð um að um leið og umræðan fari að snúast um hugmyndafræði og stefnumál muni flokkurinn rétta hlut sinn. „Mér finnst að Vinstri grænir hafi komist alveg ótrúlega auðveldlega frá því hvernig þeir ætli að skera niður. Þeir segjast ætla að fara blandaða leið, en hvað þýðir það? Það vita allir að þeir ætla að hækka skatta með fulltingi Samfylkingarinnar. Þeir hafa ekkert útskýrt hvernig þeir ætla að hagræða,“ segir Þorgerður, en Vinstri grænir mælast nú með 26% fylgi á landsvísu.

Hún segir að um leið og menn hætti að beina spjótum sínum að Sjálfstæðisflokknum, hætti að einblína á uppgjör við fortíðina og athugi hvaða lausnir flokkarnir hafi fram að færa til þess að koma þjóðinni úr erfiðleikum muni umræðan fara á annað stig. „Fólk þarf að spyrja sig hvaða lausnir flokkarnir hafi fram að færa. Lausnin er ekki fólgin í því að setja eignarskatta á eldri borgara og svo framvegis,“ segir Þorgerður.

„Það er alveg ljóst að við þurfum að hafa mikið fyrir því að ná okkar gamla fylgi aftur. Í ljósi atburða vetrarins hefur spjótunum verið beint að okkur. Aðrir flokkar eins og Framsókn, og sérstaklega Samfylkingin, hafa komið út úr þessu eins og hvítþvegin bleyjubörn sem hafa ekki komið nálægt neinu. Við höfum farið í okkar uppgjör á heiðarlegan og opinskáan hátt og við munum ganga hreint til verks,“ segir Þorgerður. Hún segir það með miklum ólíkindum að Samfylkingin hafi komist hjá því að gera upp hlutina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert