Segir Guðna vilja kollvarpa stjórnarskránni

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi.
Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi. mbl.is/Golli

Hann [Guðni] er prýðilegur maður og ég þekkti föður hans. En hann hefur þessi sjónarmið varðandi stjórnarskrána. Hann vill kollvarpa henni,“ sagði Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og forsetaframbjóðandi, í sjónvarpsþættinum Eyjan á Stöð 2 í kvöld. 

Davíð gagnrýndi Guðna Th. Jóhannesson forsetaframbjóðanda harðlega. Hann sagði Guðna hafa barist fyrir Icesave samningunum með sömu rökum og Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon og að hann hafi viljað ganga í Evrópusambandið. 

„Þessi mál eru ekki efst á baugi hjá mér. En það vita allir allt um mig. Alla kosti og galla sem ég hef. Við vitum ekkert um Guðna. Í þessum málum var skoðun hans á þessa leið og hann má ekki vera að hlaupa frá þeim,“ sagði Davíð og bætti við: 

„Hann talar um nýja sýn en segir svo ekkert meira. Ég hef slíkar hugmyndir. Ég hef nefnt það að forsetinn sé mikið erlendis, jafnvel hundrað daga á ári. Ég geri ekki lítið úr því. Hann gerði vel í því að kynna málsstað Íslands og gerði það vel. En nú vil ég að menn horfi heim og taki embættið heim.“ 

Sagðist Davíð vilja nota fjármunina sem sparast af ferðalögum til þess að veita fólki aðgang að Bessastöðum. „Það er margt gott fólk erlendis en nú vil ég að við horfum heim,“ sagði Davíð.

Davíð gagnrýndi einnig Guðna þegar hann ræddi um að honum fyndist ákveðnir menn séu sífellt að „tala landið niður.“ Sagði hann að Guðni hafi sagt að þorskastríðið hafi ekki verið hetjudáð heldur þjóðsaga. „Við tölum okkur of mikið niður. Það eru margir sem tala okkur sífellt niður. Menn tala eins og þorskastríðið sé engin hetjudáð. Við megum ekki tala það niður eins og það sé goðsögn,“ sagði Davíð.

Frétt mbl.is: Vill ekki þiggja forsetalaun

mbl.is