Vildu Heimi og Lagerbäck sem forseta

Heimir Hallgrímsson og Lars Lägerback.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lägerback. AFP

Nokkrir kjósendur í Suðurkjördæmi misskildu forsetakosningarnar illa í gær eða, það sem er öllu líklegra, reyndu að vera sniðugir í kjörklefunum og rituðu nöfn þjóðþekktra einstaklinga á kjörseðlana. 

Góður árangur íslenska knattspyrnulandsliðsins á EM skilaði sér alla leið …
Góður árangur íslenska knattspyrnulandsliðsins á EM skilaði sér alla leið á kjörseðla í Suðurkjördæmi. mbl.is/Brynjar Gauti

Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis og skólastjóri lögregluskólans, segir að nöfn á borð við Lars Lagerbäck, Ólaf Ragnar Grímsson og Heimi Hallgrímsson, „helstu hetju kjördæmisins“ þessa dagana að sögn Karls Gauta, hafi verið rituð á kjörseðla.

„Þessi atkvæði voru reyndar ógild en þetta er alltaf svona. Sumir vilja vera skemmtilegir í kjörklefunum, fyllast einhverjum galsa og krota einhver skilaboð til okkar. Atkvæðin eru ógild engu að síður þótt skemmtilegt sé,“ segir Karl Gauti.

Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis og skólastjóri lögregluskólans.
Karl Gauti Hjaltason, formaður yfirkjörstjórnar Suðurkjördæmis og skólastjóri lögregluskólans. mbl.is/Árni Sæberg

Hann segir lítið hafa verið um vísur og ljóð, oft hafi verið mun meira um slíkt. „Ég velti fyrir mér hvort kjósendur séu hættir að kveða,“ segir Karl Gauti glettinn. „Við höfum oft fengið tíu til fimmtán vísur,“ segir Karl Gauti og bætir við að þær fáu vísur sem kjörstjórninni hafi borist hafi verið illa kveðnar.

Talningin gekk mjög vel fyrir sig í Suðurkjördæmi þar sem munurinn var minnstur á öllu landinu á þeim Guðna Th. Jóhannessyni og Höllu Tómasdóttur. 

„Við biðum mjög lengi eftir Hornafjarðarkössunum. Við vorum búin að telja mest af hinu en Hornafjarðarkassarnir komu ekki fyrr en hálffimm í nótt,“ segir Karl Gauti sem segir það allt saman eðlilegt að kassarnir hafi komið svo seint því það taki alltaf sinn tíma að keyra með kjörseðlana suður til Selfoss þar sem talningin fer fram.

mbl.is