„Menn hafa haldið fram ósannindum“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hélt yfirlitsræðu sína á flokksþingi …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins hélt yfirlitsræðu sína á flokksþingi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, segir þá atburðarás sem Ásmundur Einar Daðason lýsti um það sem fram fór á fundi framkvæmdarstjórnar flokksins í gær, ekki vera sanna. Sakar hann þrjá meðlimi framkvæmdastjórnarinnar um að hafa farið með rangt mál um það sem fram fór á fundinum.

Frétt mbl.is: Ásmundur hjólar í Sigmund

„Á þessum fundi stóð til að ræða almennt um undirbúning þingsins. Þar var lögð fram tillaga um að þessu sinni yrði engin yfirlýst ræða formanns,“ sagði Sigmundur þegar hann steig aftur í pontu á þinginu í dag og flutti síðustu ræðu dagsins. Lagt hafi verið til að formaður færi með ræðu sína þess í stað undir lok þingsins á morgun, að kosningu forystu lokinni.

Sagðist hann sjálfur hafa lagt til að ráðherrar fengju að tala á fundinum, sem jafnan er ekki venjan á flokksþingi en honum hafi ekki þótt það góð hugmynd að formaður héldi ekki ræðu „Mér fannst þetta ekki góð tillaga, það varð ofan á, mér fannst ekki eðlilegt að gera þá breytingu að formaður flokksins héldi ekki ræðu.“ 

Segir þrjá meðlimi framkvæmdastjórnar segja ósatt

Þá sagði Sigmundur að í gær hafi hringt í sig blaðamaður sem tjáði honum það að þrír aðrir fulltrúar í framkvæmdastjórninni hefðu lýst svipaðri atburðarás og þeirri sem Ásmundur lýsti í sinni ræðu.

„Mér fannst ég ekki eiga skilið að hlusta á þá ræðu því þar var hreinlega farið með rangt mál,“ sagði Sigmundur. „Ég hef treyst honum fyrir fjölmörgum embættum,“ en þeirra á meðal sé hlutverk aðstoðarmanns síns, þingflokksformanns og traust til nefndasetu.

„Ég lít svo á að ef að ég fæ traust flokksmanna til að halda áfram formennsku þá fylgi því sú skilda að ég geri hvað ég get til að ná þessum flokki saman,“ sagði Sigmundur undir lok seinni ræðu sinnar. Eygló Harðardóttir, ritari flokksins, stóð einbeitt fyrir framan Sigmund á meðan hann flutti ræðuna og sást til þeirra eiga hreinskiptar samræður að henni lokinni.

„Menn hafa haldið fram ósannindum“

„Eins og alltaf á flokksþingi þá er ýmislegt rætt, en auðvitað núna þá markast umræðurnar að formannskjörinu og kemur svosem ekkert á óvart,“ sagði Sigmundur þegar blaðamaður mbl.is náði af honum tali að þingi loknu í dag. Spurður hvort orð Ásmundar hafi komið sér í opna skjöldu segir hann svo vera, honum hafi ekki þótt orð Ásmundar makleg. 

Nú lýstu þrír meðlimir framkvæmdastjórnar atburðarásinni fyrir blaðamanni, eru þeir allir að segja ósatt?

„Ja, við skulum velta því fyrir okkur hvers vegna þrír aðilar hafi samband við blaðamann til þess að segja sögu af trúnaðarfundi í flokknum.“

Upplifir þú það sem eitthvað samsæri gegn þér?

„Ég hvet þig bara til þess að tala við fleiri af þessum framkvæmdarstjóum. Það þarf ekki að vera neitt plott en menn hafa haldið fram ósannindum. Til dæmis að ég hafi komið í veg fyrir að ráðherrar væru á mælendaskrá flokksþings sem er bara ekki rétt. Því hefur verið haldið fram að ég hefði ákveðið það sérstaklega, meðal annars af þeim aðilum sem þarna um að ræða. Eins og ég nefndi áðan sá hins vegar drög að dagskrá flokksþingsins fyrst þegar hún fór á netið,“ svaraði Sigmundur, eina breytingin sem hann hafði lagt til væri að setja ræður ráðherranna á dagskrá.

Ef þú tapar kjörinu á morgun, hvernig metur þú stöðu þína innan flokksins?

„Nú er ég bara að reyna að einbeita mér að því að vera bjartsýnn og jákvæður og vonast til þess að vinna. Við tökum bara á hinu ef illa fer.“

mbl.is