Stendur við útilokun Sjálfstæðisflokks og Miðflokks

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ánægjulegt að við séum að lyfta okkur í samræmi við það sem við höfum fundið. Þetta verður æsispennandi og er allt mjög flókið og jafnt,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar í samtali við mbl.is um nýja könn­un á fylgi flokk­anna fyr­ir alþing­is­kosn­ing­ar í haust sem unn­in er í sam­starfi mbl.is, Morg­un­blaðsins og MMR. 

Í könnuninni mældist Samfylkingin með 13,1% atkvæða og myndi samkvæmt því bæta við sig tveimur þingmönnum yrði gengið til kosninga í dag. 

Á miðju kjörtímabili útilokaði Logi Einarsson samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokknum í viðtali við Fréttablaðið. Fyrir liggur að stjórnarmyndum eftir alþingiskosningar verða flóknar, fari þær eins og kannanir gefa nú til kynna. 

Spurður hvort að hann standi við áður útgefna yfirlýsingu segir Logi svo vera. 

„Lífið er ekkert einfalt og það skiptir miklu máli gagnvart þeim verkefnum sem framundan eru að það séu öfl sem deila grunnhugmyndafræði starfi saman,“ segir Logi. 

Þannig að þú stendur við fyrri yfirlýsingar?

„Við viljum mynda ríkisstjórn um félagshyggju í landinu.“

Sem útilokar Sjálfstæðisflokk og Miðflokk?

„Já, miðað við þeirra kosningaáherslur og grunnhugmyndafræði þá gerir það það.“

„Þetta snýst ekki um að útiloka flokk bara til að útiloka. Þetta snýst um að hægt verði að mynda ríkisstjórn um þau verkefni sem fram undan eru. Það er líka sérstakt ef að flokkur sem hefur stuðning fjórðungs landsmanna geti haft töglin og hagldirnar í öllum ákvarðanatökum og algjört neitunarvald í þeim verkefnum sem þarf að ráðast í,“ svara Logi, spurður hvort að eðlilegt sé að útiloka samstarf með langstærsta stjórnmálaflokknum sem nýtur stuðnings yfir fjórðungs kjósenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert