Í skýjunum yfir úrslitunum

Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti Framsóknarflokksins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson, oddviti Framsóknarflokksins og sitjandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segist vera í skýjunum yfir úrslitum alþingiskosninga þetta árið. Þá segir hann ljóst að Framsóknarflokkurinn sé að nýju orðinn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.

Flokkurinn náði alls 17,3% fylgi sem er um 6,6% meira fylgi frá því í síðustu alþingiskosningum 2017.

Framsóknarflokkurin fær þrettán kjördæmakjörna frambjóðendur inni á þing en enga jöfnunarþingmenn.

„Ég er auðvitað bara í skýjunum með þetta og mjög ánægður með árangurinn. Þetta er stórkostlegur árangur í öllum kjördæmum, mikill framgangur og mjög sterk staða sem Framsóknarflokkurinn er kominn í. Enn á ný er hann orðinn næststærsti flokkurinn og leiðandi afl í stjórmálum á Íslandi,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

„Þegar ég vaknaði í morgun var ég í miðjunni“

Sigurður var ekki tilbúinn að svara því hvort hann hyggist fara fram á stjórnarmyndunarumboðið, inntur eftir því. Hann sé að eigin sögn „enn að melta niðurstöðurnar“.

„Hið augljósa, fyrir utan stórsigur okkar, er sigur ríkisstjórnarinnar. Eins og ég hef áður sagt er að ef ríkisstjórnin héldi velli þá væri eðlilegast að við sem í henni sitjum myndum setjast niður fyrst.

Ég mun byrja á því og svo veltum við vöngum yfir því hvaða aðrar leiðir eru færar í stöðunni. Það er langeðlilegast að byrja þar vegna þess að ríkisstjórnin hélt velli. Margir minna kjósenda voru mjög ánægðir með störf hennar.“

Spurður segir Sigurður litla breytingu hafa orðið á því hvort hann hallist meira til hægri eða vinstri. „Þegar ég vaknaði í morgun var ég í miðjunni alveg eins og ég var í gær.“

Frá kosningavöku Framsóknarflokksins í gærkvöldi.
Frá kosningavöku Framsóknarflokksins í gærkvöldi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hyggjast halda áfram að „fjárfesta í fólki“

Flokkurinn hyggst áfram leggja áherslu á að „fjárfesta í fólki“ segir Sigurður inntur eftir því.

„Það segir sig sjálft. Við höfum talað um að vinna sambærilega vinnu og Ásmundur Einar stóð fyrir varðandi börn og eldra fólk. Svo hefur það orðið mér sífellt ljósara að heilbrigðismálin verði ekki leyst nema með sambærilegri hugsun, þ.e. með því að leggja meiri áherslu á forvarnir og geðheilbrigðismál.

Svo auðvitað áframhaldandi uppbyggingu innviða um land allt. Það er eitthvað sem hefur staðið upp úr hjá kjósendum, þ.e. áframhaldandi umbætur á samgöngum, jöfn tækifæri fólks til að eiga möguleika á sömu heilbrigðisþjónsutu óháð búsetu o.s.frv.“

Ekki liggur fyrir hvort Sigurður Ingi hyggist sækjast eftir forsætisráðherraembættinu að nýju en hann var forsætisráðherra á árunum 2016-2017. Ríkisstjórnin eigi þó eftir að setjast niður til að ræða það, að sögn Sigurðar.

„Eins og ég segi þá hélt ríkisstjórnin velli og rúmlega það. Við bættum gríðarlega mikið við okkur og hinir flokkarnir héldu ágætlega sínum hlut þannig við munum byrja á því að setjast niður og ræða það. Það er nokkuð ljóst að Framsóknarflokkurinn sé að nýju orðinn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum,“ segir Sigurður Ingi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert