12 ráðherrar í nýrri ríkisstjórn

Sigurður Ingi Jóhansson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson.
Sigurður Ingi Jóhansson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson. Samsett mynd

Endurnýjað ríkisstjórnarsamstarf liggur nú fyrir, stjórnarsáttmáli er tilbúinn og ekkert er því til fyrirstöðu að nýtt ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur verði myndað á morgun, sunnudag, að því tilskildu að viðeigandi flokksstofnanir stjórnarflokkanna fallist á tillögur formanna stjórnarflokkanna.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins verður nokkurt nýjabrum á umgjörð ríkisstjórnarinnar, bæði hvað varðar verkefni og verkaskiptingu. Ýmsir málaflokkar verða fluttir milli ráðuneyta og ný ráðuneyti kynnt til sögunnar. Þá munu stjórnarflokkarnir skipta á ýmsum veigamiklum ráðuneytum og eins verða talsverðar tilfæringum á ráðherrum.

Ráðherrar hinnar endurnýjuðu ríkisstjórnar verða tólf talsins í stað ellefu áður, en hinn nýi ráðherra mun koma úr röðum Framsóknar til þess að endurspegla fylgisaukningu flokksins í þingkosningunum í september.

Ört fundað um helgina

Flokksstofnanir ríkisstjórnarflokkanna þriggja hafa verið boðaðar til fundar í dag, laugardag, en ekki er gert ráð fyrir að þar reynist mikil ef nokkur fyrirstaða gegn endurnýjuðu ríkisstjórnarsamstarfi. Leggi þær blessun sína yfir stjórnarsamstarfið verður boðað til þingflokksfunda stjórnarflokkanna í fyrramálið þar sem formenn flokkanna munu hver fyrir sig leggja fram tillögu að skipan ráðherraembætta á vegum flokkanna. Þingmenn í stjórnarliðinu segja afar ósennilegt að þingflokkarnir geri breytingar á þeim tillögum.

Til stendur að óbreyttu að hin nýja ríkisstjórn verði kynnt á blaðamannafundi á sunnudag kl. 13, þar sem grein verður gerð fyrir nýjum stjórnarsáttmála, breyttri skipan ráðuneyta og hverjir muni gegna ráðherraembættum í stjórninni.

Að því loknu verður haldið til Bessastaða, þar sem hið nýja ráðuneyti mun formlega taka til starfa á ríkisráðsfundi.

Gert er ráð fyrir því að hefðbundin lyklaskipti ráðherra fari fram þegar á mánudagsmorgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert