Kæmi á óvart ef þingflokkarnir mótmæltu

Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir.
Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd

„Það er búið að negla það niður að ríkisstjórnin verði kynnt á morgun. Í rauninni er bara verið að fara í gegnum stjórnarsáttmálann og annað slíkt í dag á þessum stofnanafundum hjá flokkunum,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is.

Bjarkey segir að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi ekki enn upplýst þingflokkinn um skiptingu ráðherraembætta. „Það verður væntanlega kynnt í dag.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Bjarkeyjar mun flokksráð flokksins funda frá tvö til fimm í dag. „Það er ekki komið boð um þingsflokksfund en það er ekki ólíklegt að það verði annað hvort í dag eða í fyrramálið.

Að sögn Birgis Ármannssonar, þingsflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, mun þingflokkur flokksins hittast klukkan hálftvö í dag. Að honum loknum er flokksráðsfundur klukkan þrjú.

Birgir Ármansson, þingsflokksformanns Sjálfstæðisflokksins.
Birgir Ármansson, þingsflokksformanns Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stofnanir flokkanna hafa endanlegt ákvörðunarvald

Spurð hvort að þau geri ráð fyrir að þingflokkarnir muni leggja blessun sína yfir ríkisstjórnarsamstarfið segjast bæði Bjarkey og Birgir eiga von á því.

„Eins og ævinlega verða örugglega skiptar skoðanir líkt og vera ber en ég á ekki von á öðru en að þetta verði samþykkt. Það kæmi mér á óvart ef það yrði ekki,“ segir Bjarkey.

„Stofnanir flokksins hafa endanlegt ákvörðunarvald um það hvort við tökum þátt í þessu stjórnarsamstarfi eða ekki og það er borið undir flokksráðið. Ég á þó ekki von á öðru en að tillaga formanns verði samþykkt,“ segir Birgir í samtali við mbl.is.

Ekki náðist í Willum Þór Þórsson, þingflokksformann Framsóknar, við vinnslu þessarar fréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina