Umboð nýkjörinna sveitarstjórna gildir frá 29. maí

Sveitarstjórnarkosningar fóru fram 14. maí.
Sveitarstjórnarkosningar fóru fram 14. maí. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum tekur nýkjörin sveitarstjórn við störfum 15 dögum eftir kjördag en sveitarstjórnarkosningar fóru fram 14. maí.

Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræði- og velferðarsviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir í samtali við mbl.is. að umboð nýkjörinna sveitarstjórna taki því gildi 29. maí. Þá renni umboð fráfarandi stjórna út á miðnætti aðfaranótt 29. maí.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík, sagði hins vegar á blaðamannafundi fyrr í dag að umboð fráfarandi borgarstjórnar rynni út þann 1. júní. Guðjón segir það ekki vera dagsetninguna sem sambandið miði við en bætti við að það væri örugglega hægt að skilja lögin á tvo vegu.

Frekari upplýsingar um dagsetningar fyrstu funda nýrra sveitarstjórna er að finna hér.

mbl.is