Lengsta förin frá tunglferðunum

Gangi allt að óskum mun Orion-geimfar bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA fljúga fjær jörðinni í fyrsta tilraunaflugi sínu á morgun en nokkurt far sem ætlað er að flytja menn frá því í tunglendingunum. NASA kallar tilraunaflugið stærsta viðburðinn sem hún stendur fyrir á þessu ári.

Orion verður skotið á loft frá Canaveral-höfða í Flórída kl. 12:05 að íslenskum tíma á morgun ef áætlanir ganga eftir. Eins og stendur eru taldar 60% líkur á að áætlun standist en veðurspá gerir ráð fyrir skúrum og mögulegu hvassviðri. Farið mun fara tvo hringi umhverfis jörðina og ná mest um 5.800 kílómetra fjarlægð frá henni. Það er um fimmtán sinnum lengra frá yfirborði jarðarinnar en Alþjóðlega geimstöðin. Flugið á að taka um fjóra og hálfa klukkustund og mun áhafnarhylki Orion lenda í Kyrrahafi að því loknu.

Meiriháttar lyftistöng fyrir NASA

Upphaflega var Orion hannað til að flytja geimfara til tunglsins og var það liður í Constellation-áætlun NASA. Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, sló þá áætlun hins vegar út af borðinu árið 2010. Verkfræðingar NASA voru þó ekki af baki dottnir og töldu að hæglega mætti breyta hönnun þess þannig að það gæti flutt geimfara til reikistjörnunnar Mars eða til smástirnis í komandi framtíð.

Gangi tilraunaflugið á morgun að óskum verður um meiriháttar lyftistöng fyrir NASA að ræða því stofnunin hefur ekki getað sent geimfara sjálf út í geiminn frá árinu 2011 þegar síðasta geimskutla hennar var tekin úr umferð. Orion yrði fyrsta geimfarið sem hannað er til að flytja menn til að fara svo langt frá jörðu frá því að Apollo-ferðirnar voru farnar til tunglsins á 7. og 8. áratug síðustu aldar.

Það sem verkfræðingar NASA munu helst fylgjast með í tilraunafluginu er ferlið þegar farið er skilið frá eldflauginni í nokkrum stigum, hversu vel fjögurra sentímetra þykkur hitaskjöldur áhafnarhylkisins stenst 2.200°C hitann þegar það fellur í gegnum lofthjúp jarðar og fallhlífarnar sem eiga að tryggja að það lendi mjúklega í Kyrrahafinu.

Sagt kostnaðarsamt og stefnulaust

Gagnrýnendur Orion-verkefnisins hafa gagnrýnt gríðarlegan kostnað við það og meint stefnuleysi þess. Varlega áætlað muni þróun þess hafa kostað á bilinu 19-22 milljarða dollara árið 2021. Þá er áætlað að fyrsta mannaða tilraunaflugið fari fram.

Þróun öflugustu eldflauga sem smíðaðar hafa verið sem eiga að skjóta Orion á loft í framtíðinni er inni í kostnaðinum, hið svonefnda geimskotskerfi (e. Space Launch System). Það á að geta skotið mönnuðum geimförum á loft út fyrir lága jarðbraut.

Engin ákvörðun hafi heldur verið tekin um í hvað geimfarið verði á endanum notað. Möguleikarnir sem hafa verið nefndir eru að það gæti beislað smástirni eða farið til Mars á 4. áratug þessarar aldar. Slíkar ferðir hafa hvorki verið áformaðar hjá NASA né gert ráð fyrir þeim í fjárhagsáætlunum. 

Fyrri frétt mbl.is: Mögulegt Marsfar tilbúið

Orion tilbúið á skotpallinum á Canaveral-höfða í Flórída.
Orion tilbúið á skotpallinum á Canaveral-höfða í Flórída. NASA/Kim Shiflett
mbl.is
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
Jöklar - Hús fyrir ferðaþjónustu
Jöklar hafa átt miklu fylgi að fagna frá því þau komu fyrst á sjónarsviðið, vori...
ÚTI HRINGSTIGAR
Vantar stiga af svölunum ofan í garðinn ? Stærð 120, 140 og 160 cm og eftir mál...