Leki staðfestir tengsl Huawei við Kínastjórn

Huawei er annað eða þriðja stærsta snjallsímafyrirtæki heims, ásamt bandaríska …
Huawei er annað eða þriðja stærsta snjallsímafyrirtæki heims, ásamt bandaríska fyrirtækinu Apple, eftir mælikvörðum. Samsung trónir á toppnum. AFP

Starfsfólk tæknifyrirtækisins Huawei virðist hafa mun nánari tengsl við kínversk stjórnvöld en áður var talið. Þetta kemur fram í nýleknum gögnum sem breska blaðið Telegraph hefur undir höndum.

Í ferilskrám starfsmanna, sem lekið var, nefna starfsmennirnir samstarf við varnarmálaráðuneyti ríkisins og verkefnavinnu með frelsisher Kína (Chinese People's Liberation Army). Þeir hafi þar starfað með herdeild sem hafi meðal annars unnið að netárásum á bandarísk fyrirtæki.

Þegar rýnt var í ferilskrárnar kom í ljós að 11 starfsmenn hefðu útskrifast úr upplýsingaverkfræðideild téðs frelsishers en sú deild er rómuð í Kína fyrir rannsóknir á upplýsingahernaði, þeirri tegund hernaðar sem gengur út á að beita netárásum til að komast yfir gögn óvinanna og nýta sér þau.

Málefni Huawei hafa verið meðal ásteytingarsteina Donalds Trump Bandaríkjaforseta og …
Málefni Huawei hafa verið meðal ásteytingarsteina Donalds Trump Bandaríkjaforseta og kollega hans, Xi Jinping frá Kína. AFP

Í yfirlýsingu frá Huawei ítrekar fyrirtækið fyrri staðhæfingar um að það „starfi ekki við hernaðar- eða leyniþjónustuverkefni fyrir kínverska ríkið“. Hins vegar gildi um fyrirtækið eins og öll önnur tæknifyrirtæki, að þar starfaði fólk sem áður hefði unnið ýmist í opinbera eða einkageiranum.

Ásakanirnar eru þó taldar líklegar til þess að styrkja málstað þeirra sem kalla eftir því að Huawei verði útilokað frá viðræðum um uppbyggingu á 5G-fjarskiptakerfi í Bretlandi. Telegraph greindi frá því í apríl að Theresa May, fráfarandi forsætisráðherra Bretlands, hefði gefið grænt ljós á að Huawei tæki þátt í því verkefni.

Háværar raddir hafa verið uppi víða á Vesturlöndum um að Huawei skuli útilokað frá hvers kyns innviðauppbyggingu vegna meintra tengsla fyrirtækisins við kínversk stjórnvöld og áhyggna af því að fyrirtækið stundi njósnir fyrir ríkið.

Christopher Balding, prófessor við Fullbright-háskólann í Víetnam, kom höndum yfir ferilskrárnar 25.000 þegar hann var við rannsóknir á eignarhaldi Huawei. Hafði þeim verið hlaðið upp á kínverskri vinnumiðlunarsíðu og voru þær, fyrir mistök, aðgengilegar almenningi.

mbl.is