Segja þrjótana ekki hafa komist yfir viðkvæm gögn

Reiknistofa bankanna
Reiknistofa bankanna mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar viðkvæmar upplýsingar féllu í hendur tölvuþrjóta þegar gerð var tilraun til innbrots í tölvukerfi Reiknistofu bankanna í dag. Þetta segir upplýsingafulltrúi RB í samtali við mbl.is.

Í kjölfar innbrotsins var þjónusta tölvukerfa RB rofin, sem hafði áhrif á starfsemi netbanka og debetkorta. Þjónusturofið var afleiðing viðbragða RB við innbrotinu, sem beindist fyrst of fremst að ysta netlagi tölvukerfisins.

Uppfært kl 16:30: Í tilkynningu frá RB kemur fram að brugðist hafi verið við árásinni í samræmi við viðbragðsáætlun fyrirtækisins. Brotist hafi verið inn í ysta netlagið, en engar vísbendingar séu um að komist hafi verið inn í kerfi fyrirtækisins og viðskiptavina. Þjónusturof var afleiðing af aðgerðum til að leysa úr málinu, en tengdist ekki innbrotinu beint.

Starfsmenn RB tóku fyrst eftir óeðlilegri umferð í ytra netlagi fyrirtækisins í gærkvöldi. Frekari greining leiddi í ljós að farið hafði verið inn í ysta lagið. RB segir að sérfræðingar telji að brotist hafi verið inn með tilvuljunarkenndum hætti og að árásin hafi ekki beinst að RB sérstaklega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert