Heimurinn „þarfnast stórra fyrirtækja“

Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, situr fyrir svörum í …
Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, situr fyrir svörum í gegnum fjarfundarbúnað. AFP

Stofnendur og forstjórar nokkurra af stærstu tæknifyrirtækjum heimsins komu fyrir þingnefnd í Washington í gær til að verjast ásökunum um þau misnoti markaðsráðandi stöðu sína til að koma í veg fyrir að keppinautar nái árangri.

Jeff Bezos, ríkasti maður heims og forstjóri Amazon, sagði heiminn „þarfnast stórra fyrirtækja“ og forstjórar Facebook, Apple og Alphabet, móðurfélags Google, sögðu fyrirtækin hafa verið leiðandi í nýsköpun. BBC greinir frá.

Endurskoða regluverk um stór tæknifyrirtæki

Bandaríska þingið er með til skoðunar hvort herða eigi lög og reglur sem gilda um fyrirtækin sem og reglur um samkeppni. Einhverjir halda því fram að það þurfi hreinlega að skipta fyrirtækjunum upp í smærri einingar.

Þingmenn úr röðum demókrata gengu hart að forstjórunum í spurningum um samkeppnismál en þingmenn repúblikana spurðu meira út í hvernig fyrirtækin færu með gögn og upplýsingar og hvort íhaldssöm viðhorf væru jaðarsett á miðlum fyrirtækjanna.

„Ég kem mér bara beint að efninu – tæknirisarnir (e. big tech) eru á móti íhaldssömu fólki,“ sagði þingmaður repúblikana, Jim Jordan frá Ohio.

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook. AFP

Sumum fyrirtækjum þarf að skipta í smærri einingar

Fulltrúadeildarþingmaðurinn og demókratinn David Cicilline, sem fór fyrir þingnefndinni sem forstjórarnir komu fyrir, sagði að rannsókn þingsins, sem tók eitt ár, hefði leitt í ljós að fyrirtækin notuðu starfsemi sína á netinu til að beita keppinautana valdi með skaðlegum hætti til að halda áhrifum og stækka.

Google var til að mynda sakað um að hafa stolið efni frá minni keppinautum eins og Yelp. Cicilline sagðist þess fullviss að fyrirtækin væru í einokunarstöðu og hegðuðu sér þannig.

„Sumum þarf að skipta upp í smærri einingar og öll þurfa þau að gangast undir strangara regluverk,“ sagði hann í lok fundarins.

Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, Jeff Bezos, forstjóri og stofnandi Amazon, Sundar Pichai, forstjóri Alphabet og Google, og Tim Cook, forstjóri Apple, ítrekuðu að fyrirtækin hefðu ekki brotið gegn neinum reglum og minntu á þau bandarísku gildi sem fyrirtækin hefðu að leiðarljósi.

Sundar Pichai, forstjóri Alphabet og Google, er líklega minnst þekktur …
Sundar Pichai, forstjóri Alphabet og Google, er líklega minnst þekktur af fjórmenningunum. AFP
mbl.is