Bannað að segja að gyðingar stjórni heiminum

Facebook hefur uppfært reglur gegn hatursorðræðu.
Facebook hefur uppfært reglur gegn hatursorðræðu. AFP

Facebook hefur uppfært reglur um hatursorðræðu á samfélagsmiðlinum. Myndir sem sýna þekkt andsemítísk þemu og svokallað „blackface“ – þegar andlit hvíts manns hefur verið málað svart – eru nú bannaðar sé myndunum beint gegn fólki eða til að hæðast að þeim. Þá eru allar samsæriskenningar um að gyðingar stjórni heiminum eða helstu stofnunum á borð við fjölmiðla, hagkerfinu eða ríkisstjórnum, bannaðar.

„Þessi tegund efnis hefur alltaf verið gegn anda reglna okkar um hatursorðræðu,“ segir Monika Bicker, efnisstjóri Facebook, í samtali við BBC. „En það getur verið mjög erfitt að taka hugtök... og skilgreina þau á þann hátt að allt efni sé yfirfarið á samræmdan og sanngjarnan máta um allan heim.“

Mannréttindafrömuður ekki alfarið sannfærður

Facebook segist hafa leitað álits meira en 60 sérfræðinga utan fyrirtækisins áður en ákvörðunin var tekin, og gilda reglurnar einnig á Instagram, sem er í eigu Facebook. Ekki eru þó allir á eitt sáttir við fyrirtækið.

„Blackface er vandamál sem hefur verið viðvarandi í áratugi og því er skrítið að aðeins sé verið að takast á við það núna,“ segir Zubaida Haque, hjá mannréttindahugveitunni Runnymede Trust. „Það hefur slæm áhrif á líf svarts fólks vegna haturs í þeirra garð. Því fögnum við ákvörðun Facebook,“ segir hún. „En ég er ekki alfarið sannfærð um að þessi skref séu þáttur í kröftugri baráttu til að takast á við hatur að fyrra bragði, heldur frekar fálmkennd tilraun fyrirtækisins til að koma sér úr krísu,“ segir Haque.

22,5 milljónum færsla var eytt á Facebook á öðrum ársfjórðungi vegna brota á hatursreglum, til samanburðar við 9,6 milljónir á síðasta ársfjórðungi. Að sögn talsmanna Facebook er hækkunin að mestu til komin vegna bættra algóriþma sem sjá um að eyða hatursorðræðu-færslum úr spænsku, arabísku, indónesísku og búrmnesku sjálfvirkt. Það gefur til kynna að færslur sem brutu reglurnar hafi áður sloppið óséðar undan ritskoðun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert